Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, lýsti þeirri skoðun í dag að þeir menn, sem tengjast útrásinni og sæta nú rannsókn á viðskiptaháttum, eigi að sjá sóma sinn í því að víkja til hliðar meðan á þeirri rannsókn stendur og beita sér ekki í viðskiptalífinu á meðan.
„Mér finnst óeðlilega að þessu staðið ef það er gert með þeim hætti, að þeir menn sem hafa verið í útrásinni skuli fá einhverja sérstaka fyrirgreiðslu og afskriftir áður en niðurstaða er fengin í þessa rannsókn," sagði Jóhanna á blaðamannafundi þegar hún var spurð hvort ríkisstjórnin ætlaði að sitja hjá þegar fréttir bærust af því að forsvarsmenn Samskipa og Haga fái sérstaka fyrirgreisðlu í bankakerfinu.
„Það er ótækt að horfa upp á að þessir menn séu að fá ofurlaun gegnum einhverja samninga þannig að mér finnst að þeir eigi að sjá sóma sinn í að víkja til hliðar á meðan þessi rannsókn er uppi og þar til búið er að hreinsa þá," sagði Jóhanna.
Hún sagði að ríkisstjórnin geti ekki gripið til neinna aðgerða vegna þessa. Að störfum sé sérstök eftirlitsnefnd og Bankasýsla sem eigi að hafa eftirlit með þessum málum.
„Við höfum fyrst og fremst verið að vinna að því að það sé fullkomið gegnsæi varðandi bankana og jafnræði milli aðila. Það er fyrst og fremst okkar hlutverk að sjá til þess að verklagsreglur séu klárar, skýrar og hreinar og samræmi á milli bankanna og það höfum við verið að gera," sagði Jóhanna. „Ríkisvaldið er ekki með puttana í bankastarfsemi og hverjir fá afgreiðslu sinna mála eða afskriftir... Öll sú vinna sem við höfum unnið miðast að því að hafa gegnsæi og opið ferli í öllum þessum málum," sagði Jóhanna.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði að þeim sem vinna í bönkunum sé það vel ljóst, að ákvarðanir og aðgerðir þeirra séu undir mikilli smásjá. Þar verði allt að standast skoðun á því hvort faglega og eðlilega hafi verið unnið að hlutum.
„Þá hlýtur það að hafa eftirköst ef bankarnnir fara að ráðstafa fyrirtækjum með fjárhagslegri endurskipulagningu, jafnvel skuldaniðurfellingu, í hendur manna sem sæta rannsókn og hugsanlega verða dæmdir. Bankarnir átta sig væntanlega á að þeir verða að stíga þar varlega til jarðar í þeim efnum.
En ég vil einnig nefna hina hlið málsins sem ekki má gleymast. Það er gríðarlega mikilvægt að vinnist mjög vel úr skuldavanda atvinnulífsins og lífvænlegum rekstrarfyrirtækjum sé beint í gegnum þetta. Ella verða gjaldþrotin mun meiri og fleiri störf og meiri verðmætasköpun tapast. Þetta er vandasamt verkefni og það verður væntanlega aldrei fundin einhver ein einhlít leið sem er hafin yfir gagnrýni," sagði Steingrímur.