Sophia í skilorðsbundið fangelsi

Sophia Hansen í Héraðsdómi Reykjavíkur þegar aðalmeðferð málsins fór fram.
Sophia Hansen í Héraðsdómi Reykjavíkur þegar aðalmeðferð málsins fór fram. mbl.is/Árni Sæberg

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag Sophiu Hansen í 6 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að bera rangar sakargiftir á Sigurð Pétur Harðarson.

Sophia mætti ekki í réttarsalinn. Hún var einnig dæmd til að greiða málskostnað.

Sophia var ákærð fyrir að hafa falið lögmanni að kæra fyrir sína hönd fölsun á nafni sínu á þremur viðskiptabréfum, veðskuldabréfi, tryggingabréfi og skuldaviðurkenningu, upp á um 42 milljónir króna, og í skýrslutöku hjá lögreglu lýst því yfir að hana grunaði Sigurð Pétur Harðarson, eða einhvern á hans vegum, um að hafa falsað undirskriftir sínar. Þannig hafi Sophia komið því til leiðar að Sigurður Pétur var ranglega sakaður um skjalafals.

Um er að ræða mál, sem teygir anga sína aftur til ársins 1990 þegar forræðismál Sophiu vegna dætra hennar hófst fyrir tyrkneskum dómstólum. Hún barðist fyrir því að fá að umgangast dætur sínar, þær Dagbjörtu og Rúnu. Faðir stúlknanna, Halim Al, stóð í vegi fyrir því.

Sophia var fyrir ári dæmd til að greiða Sigurði Pétri 20 milljónir vegna vangoldinna lána sem hann veitti henni í tengslum við forræðisdeiluna. Hún var síðan ákærð fyrir að bera Sigurð Pétur röngum sökum, sem leiddi til þess að hann var grunaður um skjalafals árið 2007. 

Um er að ræða skuldabréf upp á tugi milljóna, sem Sophia sagði Sigurð Pétur hafa falsað nafn hennar á. Rannsókn erlends rithandarsérfræðings leiddi hins vegar í ljós, að nær engar líkur væru á að Sigurður Pétur hefðu skrifað nafn Sophiu á bréfin og miklar líkur væru á að Sophia hefði sjálf skrifað undir þau.

Rithandarsérfræðingurinn staðfesti þessa niðurstöðu í réttarhaldinu í morgun. Sophia lýsti því yfir að hún hefði ekki skrifað undir bréfin og Rúna, sem er skráð sem vottur á bréfunum, bar vitni símleiðis í réttarhaldinu og sagðist ekki heldur hafa skrifað nafn sitt á þau.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert