Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, segir að gert sé ráð fyrir að rætt verði við Breta og Hollendinga um Icesave eftir helgina. Væntanlega muni liggja fyrir undir lok næstu viku hvort af nýjum samningum verður.
„Við munum nýta þessa helgi til að fara nánar yfir vinnutilhögun og skipan þeirra sem verða í samninganefnd fyrir Íslands hönd og þá samningsmarkmið frekar," sagði Jóhanna og bætti við að mikilvægt væri að stjórn og stjórnarandstaða kæmu sameinuð að þessu verkefni.
„Væntanlega verður fundur strax eftir helgina með Hollendingum og Bretum og ég vona að það muni skýrast undir lok næstu viku hvort að úr þessu öllu saman verði nýr samningur milli Íslendinga, Breta og Hollendinga."
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði að fyrir lægi að bandaríski lögmaðurinn Lee Buchheit muni leiða íslensku nefndina. Hann sagði að það væri ekki endanlega staðfest hvort verði af fundum með Bretum og Hollendingum eftir helgina en það muni væntanlega liggja fyrir undir kvöld.
Steingrímur sagði jafnframt, að það þjónaði ekki hagsmunum Íslands að menn færu að bollaleggja um óorðna hluti og jafnvel leggjast í útreikninga á grundvelli þess.
„Við erum að reyna að koma af stað viðræðum við afar viðkvæmar aðstæður. Þær eru viðkvæmar bæði hér innanlands og gagnvart gagnaðilunum. Það hljóta allir hugsandi menn að sjá að það þjónar ekki hagsmunum Íslands í þessari stöðu, að fara að bollaleggja um inntakið eða veganestið í þessar viðræður, sem eðli málsins samkvæmt fara fram í trúnaði á milli aðila. Og að leggjast í útreikninga á grundvelli bollalegginga um að verið sé að fjalla um þetta og hitt er algerlega fráleitt," sagði Steingrímur.
Jóhanna tók í sama streng. „Það sem máli skiptir er að við sameinuð stjórn og stjórnarandstaða náum niðurstöðu í þetta mál og komum þá heim með betri samninga en eru uppi á borðinu núna," sagði hún.