Ein umfangsmesta aðgerð embættis sérstaks saksóknara hefur farið í Banque Havilland í Lúxemborg undanfarna daga en bankinn tók við starsfsemi Kaupþings í Lúxemborg á síðasta ári. Rannsóknin tengist viðskiptum með hlutabréf í Kaupþingi og skuldatryggingum.
„Það er ennþá verið að gefa skýrslur hjá lúxemborgsku lögreglunni og það klárast í kvöld,“ segir Ólafur Þór Hauksson sérstakur saksóknari í samtali við mbl.is.
Aðspurður segir hann ráðgert að alls verði ellefu manns yfirheyrðir vegna málsins úti. Spurður hvort allir í hópnum séu Íslendingar segist Ólafur Þór ekki vilja gefa upp þjóðerni einstaklinganna en tekur fram að um sé að ræða einstaklinga sem búsettir séu í Lúxemborg og taldir eru geta veitt upplýsingar um málið. Spurður hvort um sé að ræða einstaklinga sem áður hafi verið yfirheyrðir hérlendis segir Ólafur Þór það eiga við í einhverjum tilvikum.
Að sögn Ólafs Þórs hafa aðgerðir vikunnar verið í undirbúningi síðan í september sl. Rannsóknin sé ekki aðeins sú umfangsmesta hjá saksóknara heldur mun einnig vera með þeim stærri í Lúxemborg. „Þetta er víðtæk aðgerð og yfirvöld í Lúxemborg hafa lag sig fram við að verða við beiðni okkar um aðstoð.“
Ólafur Þór fór utan við fimmta mann á sunnudaginn var til undirbúnings með lögreglunni í Lúxemborg á mánudag, en aðgerðir hófust á þriðjudag og er ráðgert að þeim ljúki í kvöld og starfsmenn sérstaks saksóknara komi heim á morgun. Leitað var á tveimur stöðum hjá Banque Havilland og í heimahúsi.
„Aðgerðirnar eru framkvæmdar á grundvelli réttarbeiðna, sem embættið er búið að senda út til yfirvalda í Lúxemborg. Það er verið að hrinda í framkvæmd þeim beiðnum og þá er framkvæmdin alfarið í hendi lögreglunnar í Lúxemborg. Við erum til aðstoðar ef á þarf að halda.“
Spurður hvers kyns gögn hafi verið lagt halda á segir Ólafur Þór bæði um að ræða skjalaleg gögn sem og rafræn gögn. Spurður um ótta margra við því að mönnum myndi takast að eyða gögnum áður en til þeirra næðist svarar Ólafur Þór: „Þau gögn sem við töldum vera inni í bankanum reyndust vera þar, þannig að leitin bar árangur.“
Breska Rowland fjölskyldan, sem hefur verið viðloðandi fjárfestingar og fjármálaumsýslu í um 45 ár og m.a. sinnt fjárfestingarráðgjöf í gegnum fyrirtæki sitt Blackfish Group, keypti Kaupþing í Lúxemborg í júlí í fyrra og sameinaði hann Banque Havilland S.A.
Í október var bankinn opnaður formlega á ný í húsnæðinu í Lúxemborg þar sem Kaupþing var áður með rekstur. Magnús Guðmundsson, sem var framkvæmdastjóri Kaupþings í Lúxemborg, var ráðinn framkvæmdastjóri Banque Havilland þar.
Það var Andrés Bretaprins, sem opnaði bankann formlega en einnig voru ráðherrar í Lúxemborg og Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra, viðstaddir.