Rannsaka ásakanir um lygar

Nout Wellink, seðlabankastjóri Hollands, og Wouter Bos, fjármálaráðherra.
Nout Wellink, seðlabankastjóri Hollands, og Wouter Bos, fjármálaráðherra. Reuters

Wouter Bos, fjármálaráðherra Hollands, hefur fyrirskipað rannsókn á þeim ásökunum stjórnenda hollenska seðlabankans, að íslensk stjórnvöld hafi sagt hollenskum stjórnvöldum ósatt um stöðu íslenska bankakerfisins í aðdraganda bankahrunsins á Íslandi haustið 2008.

Þetta kemur fram á vefnum dutchnews.nl. Bæði Nout Wellink, seðlabankastjóri Hollands, og Arnold Schilder, fyrrverandi yfirmaður hollenska bankaeftirlitsins, hafa fullyrt í yfirheyrslum hjá hollenskri þingnefnd að íslensk stjórnvöld hafi veitt rangar upplýsingar um stöðu Landsbankans, sem hóf að bjóða upp á Icesave-reikninga í Hollandi vorið 2008.

Wellink sagðist í hollenskum fjölmiðlum í gær hafa undir höndum gögn sem sýndu fram á að Íslendingar hefðu heitið því að tryggja allar innistæður á Icesave-reikningunum.  

Þá hefur franski seðlabankinn Banque de France sent frá sér yfirlýsingu þar sem segir að hann hafi aldrei bannað að boðið yrði upp á Icesave-reikninga í Frakklandi.

Björgvin G. Sigurðsson, alþingismaður og fyrrverandi viðskiptaráðherra, sagði í grein í hollenska blaðinu Volkskrant í vikunni, að Frakkar hefðu neitað að hleypa Icesave inn á franska markaðinn. 

Prófessorinn Edgar du Perron, sem hefur rannsakað hrun Icesave fyrir hollensk stjórnvöld, tók undir fullyrðingar Björgvins í gær, að sögn Dutch News. Hann sagði að eitt annað land hefði einnig bannað Icesave-reikningana. 

En í yfirlýsingu franska seðlabankans segir, að aldrei hafi verið sótt um leyfi fyrir Icesave-reikningum í Frakklandi og engin tilkynning hafi borist um að til stæði að bjóða slíka reikninga þar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka