Skora á ráðherra að endurskoða niðurskurð

Geðlyfið Prozac.
Geðlyfið Prozac.

Stjórn Ungra vinstri grænna mótmælir fyrirhugaðri skerðingu á niðurgreiðslu geðlyfja og lýsir yfir þungum áhyggjum vegna þeirra afleiðinga sem það kann að hafa í för með sér.

Í yfirlýsingu sem stjórnin hefur sent frá sér segir m.a.: „Öllum er ljóst hversu vandasamt og óöfundsvert hlutskipti ríkisstjórnarinnar í fjármálum hins opinbera er og að ekki er hægt að ná fram nauðsynlegri hagræðingu án þess að til niðurskurðar komi. Samt sem áður skorar stjórn Ungra vinstri grænna á heilbrigðisráðherra  að endurskoða þessi áform í ljósi þeirra afleiðinga sem skerðingin mun hafa á einstaklinga  sem eiga við geðræn vandamál að stríða.

Þá er líklegt að þessi sparnaðaraðgerð muni, þegar öllu er á botninn hvolft, ekki bera tilætlaðan árangur. Búast má við því að hún valdi auknu álagi á heilbrigðiskerfið sem nú þegar hefur þurft að takast á við mikinn niðurskurð. Á tímum sem þessum ber að gæta sérstaklega vel að geðheilbrigðismálum og fara afar varlega í niðurskurð á því sviði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert