Hæstiréttur þarf að skera úr

Gylfi Magnússon
Gylfi Magnússon mbl.is/Eggert

„Það er orðið augljóst að Hæstiréttur verður að skera úr um lögmæti þessara samninga, enda hafa nú fallið tveir dómar á sitt hvorn veginn,“ segir Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra. 

„Auðvitað verðum við svo bara að spila úr þeirri stöðu sem kemur upp þegar Hæstiréttur er búinn að komast að niðurstöðu. Að vísu er það þannig að þessir samningar eru svo mismunandi þannig að það er ekkert víst að það verði sama niðurstaðan með þá alla, vegna þess að í grunninn eru lán í erlendri mynt lögleg og enginn ágreiningur um það.

En ágreiningurinn er um lán sem óljóst er hvort séu í erlendri mynt eða krónum með erlendri verðtryggingu. Og það er mjög mismunandi hvernig þetta var útfært hjá lánveitendum á sínum tíma. Þannig að það getur verið dómstólar komist ekki að sömu niðurstöðu.“

Spurður hvort nýfallinn dómur, verði hann staðfestur í Hæstarétti, geti hugsanlega sett fjármála- og fjármögnunarfyrirtæki í uppnám segir Gylfi að vissulega geti fyrirtæki sem eigi allt sitt undir þessum samningum lent í vandræðum.

„En bankarnir stóru voru auðvitað endurreistir að teknu tilliti til þess að það væri veruleg óvissa um endurheimtur á eignum og ekki gert ráð fyrir að kröfur í erlendri mynt myndu endurheimtast að fullu. Bæði vegna þess að lántakendur væru illa staddir, en líka vegna þess að gengi krónunnar er í sögulegu lágmarki og frekar líkur á að það sígi upp á við á næstu árum sem rýrir gildi þessara útlána mælt í krónum. Þannig að ég held að það sé alveg augljóst að hver svo sem niðurstaðan verður í þessum dómsmálum öllum þá verði það ekki til að slá bankana alveg út af laginu þó það gæti kostað þá eitthvað.

Það er frekar álitamál hvort þetta kæmi sér illa fyrir þessi smáu sérhæfðu fyrirtæki sem eru með mjög mikið af svona lánum og kannski lítið af öðrum eignum,“ segir Gylfi og tekur fram að það væri hins vegar fyrst og fremst vandamál eigenda fyrirtækjanna og kröfuhafa en kæmi ekki inn á borð stjórnvalda. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka