Tekur til baka ummæli um Frakka og Icesave

Hollenskur prófessor hefur dregið til baka yfirlýsingar um að seðlabanki Frakklands hafi neitað að leyfa Landsbankanum að bjóða Icesave-reikninga í Frakklandi. Þetta kemur fram í hollenska blaðinu Volkskrant í dag.

Fjallað er um málið á vefnum DutchNews.nl í dag.  Þar kemur fram, að Edgar du Perron, prófessor, hafi sagt við blaðið í vikunni að Frakkar hafi stöðvað Icesave og að hollensk stjórnvöld hefðu getað gripið til sömu ráðstafana áður en Landsbankinn fór að bjóða Hollendingum Icesave-reikninga á fyrri hluta ársins 2008. 

Björgvin G. Sigurðsson, alþingismaður, tók í sama streng í opnu bréfi sem hann birti í Volkskrant í vikunni.  

Du Perron segir nú, að heimildirnar, sem hann byggði yfirlýsingu sína á, hafi reynst rangar og að hann hafi túlkað þær með röngum hætti.

Franski seðlabankinn sendi frá sér yfirlýsingu á fimmtudag þar sem hann sagði að aldrei hefði verið óskað formlega eftir leyfi til að reka Icesave-netbanka í Frakklandi.

Hollensk stjórnvöld fengu nýlega Du Perron til að rannsaka Icesave-málið. Volkskrant segir, að prófessorinn standi við þær fullyrðingar sínar, að ráðherrar og hollenski seðlabankinn hefðu getað gert ráðstafanir til að reyna að koma í veg fyrir að Icesave-netbankinn fengi að starfa í Hollandi.

Landsbankinn hóf að bjóða Icesave-reikninga í Hollandi í apríl 2008. Þegar bankinn fór í þrot námu innistæður á þessum reikningum þar jafnvirði tæplega 300 milljarða króna á rúmlega 114 þúsund reikningum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert