„Við munum fylgjast með málinu áfram," segir Már Másson, upplýsingafulltrúi Íslandsbanka, um bílalánadóminn í máli Lýsingar. Hann segir málið fara fyrir Hæstarétt og Íslandsbanki muni una þeirri niðurstöðu.
Már segir Íslandsbanka Fjármögnun hafa gengið einna lengst hvað varðar úrræði fyrir viðskiptavini sem fjármögnuðu bílakaup með gengistryggðum lánum. Á fjórða þúsund viðskiptavina hafi þegar nýtt sér þau úrræði. „Bankinn hefur talið þessa fjármögnunarsamninga löglega og að þeir standi en það mun væntanlega koma í hlut Hæstaréttar að kveða upp endanlega niðurstöðu um lögmæti þeirra. Íslandsbanki mun að sjálfsögðu una þeirri niðurstöðu," segir Már.
Hann segir að þeir fjölmörgu viðskiptamenn, sem hafa nýtt sér úrræði bankans, muni einnig njóta betri réttar, verði niðurstaða Hæstaréttar hagfelldari en þau úrræði sem hafa verið í boði. Þetta hafi alltaf legið fyrir af hálfu bankans og komi m.a. fram á heimasíðu hans.