Þjóðfundur um menntamál stendur nú yfir í húsakynnum menntasviðs Háskóla Íslands í Stakkahlíð.
Á þriðja hundrað manns taka þátt í fundinum þar sem rætt er um menntun og framtíð barnanna. Eru virðing, sköpun og gleði þau gildi sem fundurinn vill leggja áherslu á í menntamálum að sögn Kristínar Dýrfjörð, lektors við Háskólann á Akureyri.
Þessa stundina er verið að vinna að hugmyndum að aðgerðum sem falla undir þemu fundarins sem eru kennaramenntun, skóli og samfélag, skapandi skólastarf, skólaþróun, samfélagsfærni og kennsluhættir og námsefni.
Að fundinum loknum eiga að liggja fyrir minnst 30 tillögur að beinum aðgerðum í menntamálum.