Fyrst og fremst sigur flokksins

Eiríkur Finnur Greipsson.
Eiríkur Finnur Greipsson.

„Í mínum huga er þetta fyrst og fremst sigur Sjálfstæðisflokksins í þessu litla bæjarfélagi. Við erum með 992 á kjörskrá, sem er mikil fjölgun félaga, og það er ekki sjálfgefið að ná svona góðum árangri miðað við þær aðstæður sem hafa verið uppi í landinu. Ég er bæði hrærður og stoltur af sjálfstæðismönnum í Ísafjarðarbæ að hafa náð að hrista sig saman," segir Eiríkur Finnur Greipsson um úrslitin í Ísafjarðarbæ hjá Sjálfstæðisflokknum.

Hann segir listann vera vel skipaðan og allir frambjóðendur verið mjög vel hæfir til að setjast í bæjarstjórn. „Þessi stuðningur sem ég fékk, sem er 61% í fyrsta sæti og það eru 89% kjósenda sem setja mig á blað, er meira en ég gat látið mig dreyma um fyrirfram. Ég er stoltur Ísfirðingur og stoltur sjálfstæðismaður og tel að sjálfstæðismenn eigi eftir að sýna enn meiri styrk og stuðning fram til vors," segir Eiríkur.

Sjálfstæðisflokkurinn er með fjóra bæjarfulltrúa af níu í Ísafjarðarbæ og myndar meirihluta með framsóknarmönnum. Af sex efstu í prófkjörinu eru aðeins tveir bæjarfulltrúar þannig að nýliðun í bæjarstjórn verður nokkur. Gísli H. Halldórsson varð í öðru sæti en Guðný Stefanía Stefánsdóttir endaði í sjötta, hafði sett markið á 2. sætið.

Mikil fjölgun flokksfélaga

Flokksmönnum fjölgaði verulega fyrir prófkjörið, voru ríflega 600 í byrjun þessa mánaðar en endaði í nærri 1.000 á kjörskrá. Eiríkur Finnur sat á sínum tíma lengi í sveitarstjórn Flateyrar sem oddviti, áður en sameining varð við Ísafjörð árið 1996. Að hans sögn var töluverð fjölgun félagsmanna á Flateyri en það skýri ekki að öllu leyti þá góðu kosningu sem hann fékk.

„Ég er ekki bara fulltrúi Flateyrar eða þorpanna og ætla fyrst og fremst að sinna því hlutverki að vera oddviti þessa lista. Hann verður að gæta hagsmuna heildarinnar umfram allt annað," segir Eiríkur, og vildi að lokum koma á framfæri innilegu þakklæti til sinna ötulu stuðningsmanna í Ísafjarðarbæ.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert