Ók á móti einstefnu á Njálsgötunni

Lögreglan var við ölvunareftirlit er ökumaður stakk af.
Lögreglan var við ölvunareftirlit er ökumaður stakk af. Júlíus Sigurjónsson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu veitti ölvuðum og réttindalausum ökumanni eftirför í Þingholtinu í nótt. Sá skapaði verulega hættu er hann ók á móti umferð upp einstefnugötu.

Lögreglumenn voru við ölvunareftirlit á gatnamótum Klapparstígs og Njálsgötu um miðnætti í nótt, er þeir gáfu ökumanni merki um að stöðva bíl sinn. Áður en hægt var hins vegar að hafa afskipti af manninum jók hann hraðann og ók upp Klapparstíginn og austur Njálsgötuna á móti einstefnu.

Fjórir lögreglubílar tóku þátt í aðgerðunum og náðu að loka umferðaræðum. Maðurinn var síðan króaður af rétt við  Snorrabrautina og reyndist þá verulega ölvaður. Einn farþegi var með honum í bílnum og reyndist sá einnig ölvaður. Einn lögreglumaður fékk minniháttar meiðsl í aðgerðunum er hann datt af mótorhjóli.

Ökumaðurinn var réttindalaus eftir að hafa misst ökuréttindi en hefur ekki komið oft við sögu lögreglu.

Fimm aðrir voru teknir grunaðir um ölvunarakstur í nótt og í morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert