Fjöldi björgunarsveitarmanna er enn við leit að vélsleðafólkinu, konu og unglingi, við austanverðan Langjökul. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins var fólkið í hópi vélsleðamanna á vegum ferðaþjónustufyrirtækis og varð viðskila við samferðamenn sína síðdegis. Fólkið mun vera ágætlega búið til útiveru.
Skyggni á vettvangi er sáralítið, dimm él og vindur hefur farið upp í 20 metra á sekúndu. Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörgu er áhersla lögð á það núna að leita með snjóbílum og stærri farartækjum. Ekki eru aðstæður í náttmyrkrinu til að leita með vélsleðum, þar sem sprungur og svelgir eru á jöklinum.
Leit heldur áfram í nótt og munu vélsleðar fara af stað í birtingu, sem og þyrla Landhelgisgæslunnar en henni var snúið við til Reykjavíkur fyrr í kvöld þar sem aðstæður fyrir hana voru ekki hentugar. Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörgu miðast leitin núna að því að þræða þekktar slóðir og þann skráða feril sem aðrir í vélsleðahópnum höfðu fylgt.