Vilja breyta lögum um þjóðlendur

Valþjófsstaðarkirkja í Fljótsdal.
Valþjófsstaðarkirkja í Fljótsdal. Sigurður Ægisson

Landssamtök landeigenda á Íslandi skora á Alþingi og ríkisstjórn að breyta lögum um þjóðlendur þannig að þar verði sett inn ótímabundið heimildarákvæði um endurupptöku mála komi fram ný sönnunargögn í þjóðlendumálum sem lokið er með dómum. Þetta var samþykkt samhljóða á aðalfundi samtakanna fyrir helgi. Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti á föstudaginn úrskurð óbyggðanefndar að stór hluti kirkjujarðarinnar Valþjófsstaðar í Fljótsdal skuli vera þjóðlenda

Vísað er til þess að um 16.000 skjöl liggi órannsökuð í Árnastofnun og á Landsbókasafni og þar kunni að vera sönnunargögn um eignarhald á landi sem dæmd hafi verið þjóðlenda. Ekkert ákvæði sé í þjóðlendulögum sem heimili endurupptöku mála ef slík sönnunargögn komi í leitirnar.

Má ekki vera tilviljunum háð

Fram kom í skýrslu stjórnar á aðalfundinum að Óbyggðanefnd hefði eingöngu leitað til Þjóðskjalasafnsins eftir gögnum í þjóðlendumálum, aldrei til Árnastofnunar. Örn Bergsson, formaður Landssamtaka landeigenda, sagði ekki boðlegt að hafa það tilviljunum háð hvort fólk héldi helgum rétti sínum, eignaréttinum. Þess vegna krefðust samtökin þess að öll skjöl væru tiltæk og aðgengileg lögmönnum landeigenda.

Liðlega hálft landið hefur nú verið tekið til meðferðar í Óbyggðanefnd vegna þjóðlendumála. Fjármálaráðherra hefur lýst yfir að ríkið muni ekki birta næstu kröfugerð sína fyrr en árið 2012. Formaður Landssamtaka landeigenda segir að með sama áframhaldi verði þjóðlenduyfirferðinni ekki lokið á landinu öllu fyrr en eftir 10-12 ár!

Þorsteinn Magnússon, lögmaður í fjármálaráðuneytinu, mætti á aðalfundinn í forföllum Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra. Hann sagði að þegar hefðu verið kveðnir upp 45 héraðsdómar vegna þjóðlendumála og 31 Hæstaréttardómur. Tugir mála til viðbótar væru nú fyrir dómstólum, 33 mál fyrir héraðsdómstólum og 12 mál hjá Hæstarétti.

Stór hluti Valþjófsstaðar þjóðlenda

Nýjasti úrskurðurinn í þjóðlendumálum er sá að Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti í á föstudaginn úrskurð Óbyggðanefndar að stór hluti kirkjujarðarinnar Valþjófsstaðar í Fljótsdal skuli vera þjóðlenda.

Það var Kirkjumálasjóður sem stefndi fjármálaráðherra, fyrir hönd íslenska ríkisins. Landsvæðið sem um ræðir er Vesturöræfi ásamt syðri hluta afréttarlandanna Rana og Undir Fellum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka