Hóflega bjartsýnn

Steingrímur J. Sigfússon
Steingrímur J. Sigfússon mbl.is/Golli

„Þessi fundur fór nú fyrst og fremst í það að kynna okkar hugmyndir, þ.e. það sem við höfum sameinast um hérna heima og fara rækilega yfir það. Þeir spurðu út í það og síðan eru menn að meta stöðuna í framhaldinu,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, í samtali við blaðamenn að loknum símafundi sem formenn stjórnmálaflokkanna áttu með  bandaríska lögfræðingurinn Lee C. Buchheit, sem fer fyrir íslensku samninganefndinni. Annar símafundur verður síðar í kvöld.

Íslenska samninganefndin fundaði í dag með fulltrúum breskra og hollenskra stjórnvalda í London í Bretlandi. Á fundinum kynnti samninganefndin tillögur til lausnar Icesave-málsins, sem byggja á samkomulagi stjórnar- og stjórnarandstöðuflokka á Alþingi.

Steingrímur sagði menn binda vonir til þess að framhald verði á viðræðum, en það skýrist sennilega ekki fyrr en á morgun. Tók hann þó fram að hann væri hóflega bjartsýnn. „Við vonumst til þess að það verði framhald á en þetta hangir á veikum þræði.“

Aðspurður hvort svör hafi fengist um það hvort Bretar og Hollendingar séu tilbúnir í nýjar samningaviðræður segir Steingrímur það ekki endanlega komið á hreint. „Það eru engin endanleg svör. Það verða samskipti í framhaldi af þessum fundi og ræðst í gegnum þau hvert framhaldið verður,“ segir Steingrímur og tekur fram að jákvætt sé að ekki hafi slitnað upp úr viðræðum. 

„Undirtektir voru ekki fagnandi við okkar hugmyndir. En það slitnaði ekki upp úr viðræðum, þannig að við höldum bara í vonina. Möguleikinn er opinn ennþá.“

Fjármálaráðuneytið staðfesti í kvöld, að í íslensku sendinefndinni væru, auk Buchheits,  þeir Guðmundur Árnason og Einar Gunnarsson, ráðuneytisstjórar fjármálaráðuneytis og utanríkisráðuneytis, ásamt Jóhannesi Karli Sveinssyni lögmanni og Lárusi Blöndal lögmanni, sem tilnefndur er af stjórnarandstöðuflokkunum sameiginlega. Þeim til ráðgjafar eru Don Johnston, fyrrverandi framkvæmdastjóri OECD, auk sérfræðinga ráðgjafarfyrirtækisins Hawkpoint og lögfræðistofunnar Ashurst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka