Samanlagðar útflutningstekjur álveranna þriggja á seinasta ári jafngilda nálægt 177 milljörðum króna. Útlitið er að flestra mati ennþá betra á þessu ári og gera spár ráð fyrir að áliðnaðurinn á Íslandi muni skila fyrirtækjunum jafnvirði um 200 milljarða kr. í útflutningstekjum á yfirstandandi ári. Þetta slagar upp í þær fjárhæðir sem sjávarútvegurinn skilar í þjóðarbúið en tekjur af útflutningi sjávarafurða í fyrra voru tæplega 210 milljarðar.
Iðnaðarvörur voru rúm 48% í útflutningi landsmanna í fyrra og var það annað árið í röð sem hlutdeild iðnaðarvara er meiri en sjávarafurða.
Þessar gjaldeyristekjur skila sér þó alls ekki allar inn í þjóðarbúið. Áætlað hefur verið að nálægt 40% útflutningsteknanna fari úr landi í kaup á aðföngum og rekstrarvörum auk arðgreiðslna en stór hluti situr hér eftir í greiðslum fyrir raforkuna, vinnulaun og skattgreiðslur auk þjónustuviðskipta við fjölmarga aðila og til viðhalds og endurbóta. Í skýrslu iðnaðarráðuneytisins á seinasta ári um áhrif stóriðjuframkvæmda á íslenskt efnahagslíf kom fram að kaup álfyrirtækjanna þriggja á innlendri vöru og þjónustu árið 2008 hafi numið um 25 milljörðum svo dæmi séu nefnd.
Álver Rio Tinto Alcan í Straumsvík flutti í fyrra út 195.065 tonn af áli. Samkvæmt upplýsingum Ólafs Teits Guðnasonar, framkvæmdastjóra samskiptasviðs álversins, er það heldur meira en framleitt var í kerskálum sem var um það bil 188 þúsund tonn. Mismunurinn felst einkum í því að álverið keypti ál m.a. af Norðuráli til að anna eftirspurn. Steypuskálinn í álverinu framleiðir fjölmargar mismunandi málmblöndur úr hrááli eftir nákvæmri forskrift erlendra viðskiptavina. Sölutekjur af útflutningnum í fyrra voru 355,8 milljónir dollara. Ef mið er tekið af miðgengi Seðlabankans yfir árið jafngilda sölutekjur álversins í Straumsvík 43,98 milljörðum króna.
Miklar sveiflur hafa verið á heimsmarkaðsverði á áli á umliðnum misserum. Viðmiðunarverð fór niður fyrir 1.300 dali í upphafi árs 2009 en í lok ársins var það komið yfir 2.300 dali.
Í Peningamálum Seðlabankans kemur fram að áætlað er að álverð verði um 27% hærra á þessu ári en á liðnu ári. Fréttir úr áliðnaðinum benda í sömu átt. Spáð er um 10% aukningu á spurn eftir áli 2010.