Lögreglan á Akranesi fékk á laugardagskvöldi tilkynningu um stráka, sem væru að reyna að kveikja í á lóð Brekkubæjarskóla. Þegar lögregla kom á vettvang voru piltarnir búnir að setja saltpétur, sykur og paprikukrydd í 2 lítra plastflösku og ætluðu að kveikja í þessu.
„Þetta var haldlagt og í framhaldi rætt við foreldra þeirra," segir lögreglan á vef sínum.
Fleiri voru að fikta með eld á Akranesi um helgina því á föstudagskvöld var tilkynnt um að eldvarnarkerfi Fjölbrautaskóla Vesturlands hafi farið af stað. Í ljós kom að einhverjir hafi verið að fikta með eld þarna en ekki um tilraun til íkveikju að ræða. Engar skemmdir hlutust þó af þessu.