Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði á Alþingi í dag, að full ástæða væri að hafa áhyggjur af þeirri þróun, sem birtist í tölum Hagstofunnar í dag um búferlaflutninga til og frá landinu. 4835 fleiri fluttu frá landinu en til þess á síðasta ári.
Jóhanna benti hins vegar á að um helmingur þeirra, sem fluttu frá landinu hefði verið útlendingar, sem komu hingað til lands þegar nóg atvinna var og séu nú að hverfa til síns heima.
Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, spurði til hvaða ráðstafana ríkisstjórnin ætlaði að grípa til að sporna við þessum landflótta. Spurði hún einnig hvað væri að frétta af skjaldborginni, sem boðað hefði verið að slegið yrði um heimilin í landinu.
Jóhanna sagði að full ástæða væri til að hafa áhyggjur af þessari þróun og ríkisstjórnin ynni að því að að reyna að koma í veg fyrir að Íslendingar sjái ástæðu til að flytja á brott.
Hún sagði að ríkisstjórnin hefði í síðustu viku samþykkt áætlun um framkvæmdir til að að skapa störf. Sem betur fer væri atvinnuleysið minna, en spár gerðu ráð fyrir.
Mikilvægt væri að vinna áfram við uppbyggingu til að skapa hagvöxt og að ná til lands málum á borð við efnahagsáætlunina og Icesave-málið.