Icesave-deila hefur tafið endureisn

Steingrímur J. Sigfússon í ræðustóli Alþingis.
Steingrímur J. Sigfússon í ræðustóli Alþingis.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði á Alþingi í dag að enginn vafi væri í hans huga á að ef Icesave-málið hefði leysts farsællega fyrir mörgum mánuðum væri nú vaxandi bjartsýni á að  viðsnúningur hagkerfisins yrði ekki aðeins að veruleika á þessu ári heldur einnig kröftugri en menn  hefðu gert sér vonir um.  

Steingrímur sagði í utandagskrárumræðu um efnahagsmál, að í kjölfar hrunsins hefði verið spáð 10-12% atvinnuleysi og 10-12% samdrætti landsframleiðslu á árinu 2009. Reyndin hefði hins vegar verið að samdráttur landsframleiðslu hafi verið 7,5-7,7%, atvinnleysi hafi verið um 8% og stýrivextir væru komnir niður fyrir 10% og verðbólga 7% og á niðurleið.

Þannig hefði árið 2009 gengið betur en spár gerðu ráð fyrir. Nú væru horfurnar óvissari og spár um samdrátt o færu nú aftur versnandi.

„Það er hætta á því, að ákveðnin kólnun fari aftur af stað í hagkerfinu eins og minni veltutölur á fyrstu vikum ársins benda til," sagði Steingrímur. „Allt bakslag í viðsnúningi hagkerfisins verður okkur ákaflega dýrkeypt, og ekki síst fyrir ríkissjóð."

Margt gott að gerast

Steingrímur sagði að menn mættu þó ekki missa sjónar á því sem væri gott að gerast. Hann nefndi að Actavis hefði nýlega boðað aukna framleiðslu hér á landi. Útflutningsfyrirtæki á borð við Marel og Össur, meti hvort þau eigi að auka framleiðslu sína á ný hér á landi. Þá nefndi Steingrímur fyrirtækin Promens á Dalvík og  tölvuleikjaframleiðandann CCP sem dæmi um fyrirtæki sem séu í vexti.

Þá hafi í gær verið til umræðu sólarkísilverksmiðja í Þorlákshöfn. Verið væri að byggja upp aflþynnuverksmiðja að byggjast upp á Akureyri og koltrefjaverksmiðja væri í undirbúning. Landsvirkjun væri að bjóða út fyrsta áfanga Búðarhálsvirkjunar og Orkuveita Reykjavíkur væri að reyna að fjármagna sínar framkvæmdir. Tilboð hefðu verið opnuð í gær í hönnun nýs háskólasjúkrahús og ferðaþjónustan ætti í vændum sitt besta ár í sögunni, til þess bentu allar bókanir.

„Sætaframboð til Íslands í flugi verður meira en nokkru sinni. Þýsk og austurrísk flugfélög munu bætast við þau sem hafa flogið til Íslands á sumrin. 5000 sæti verða í boði milli Þýskalands og Íslands í viku hverri," sagði Steingrímur. 

Hann sagði, að ákveðin tilfærsla væri augljóslega að eiga sér stað í íslensku atvinnulífi, sem sýndi að það væri að laga sig að breyttum aðstæðum sem væri til marks um sköpunarkraft og aðlögunarhæfni íslensks atvinnulífs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka