Árið 2009 fluttu 4835 fleiri frá landinu en til þess og segir Hagstofan, að aldrei áður hafi jafn margir flutt frá landinu á einu ári.
Næstflestir brottfluttir umfram aðflutta voru árið 1887 en þá fluttu 2229 fleiri frá landinu en til þess. Árið 1887 var mannfækkun vegna búferlaflutninga þó helmingi meiri ef miðað er við miðársmannfjölda, eða 3,1% á móti 1,5%.
Frá landinu fluttu flestir til Evrópu eða 9546 en það er tæplega 9 af hverjum 10 brottfluttum. Flestir fóru til Norðurlandanna eða 4033 sem er 38% allra brottfluttra. Þar af fóru 1576 til Noregs, 1560 til Danmerkur og 733 til Svíþjóðar. Af einstökum löndum fóru flestir til Póllands eða 2818 (26,6%).
Mjög dró úr aðflutningi til landsins frá árinu áður. Hagstofan segir, að ef frá séu talin árin 2005–2008 hafi þó aldrei flust fleiri til Íslands frá útlöndum en árið 2009, eða 5777. Flestir fluttu til landsins frá Evrópu eða 4938 en það er 85,5% af heildarfjölda aðfluttra til landsins. Frá Norðurlöndum kom 1931, þar af 1193 frá Danmörku en 418 komu frá Ameríku. Af einstökum löndum komu flestir frá Póllandi, 1235.
Árið 2009 voru flestir brottfluttra á aldrinum 25–29 ára. Tíðasti aldur brottfluttra var 25 ár. Flestir aðfluttra voru aftur á móti á aldrinum 20–24 ára árið 2009. Tíðasti aldur aðfluttra var 25 ár.
Fjöldi innanlandsflutninga náði hámarki á árinu 2007 en þá voru skráðar í íbúaskrá þjóðskrár 58.186 flutningstilkynningar. Árið 2008 fækkaði þeim um 8652 og árið 2009 voru þær komnar niður í 46.926. Hagstofan segir, að miðað við flutninga á hverja 1000 íbúa þurfi að fara aftur til 1988 til að finna lægri tíðni innanlandsflutninga.
Höfuðborgarsvæðið tapaði flestum einstaklingum vegna brottflutninga umfram aðflutninga eða 2546 manns. Það tap helgast aðallega af miklum flutningum frá höfuðborgarsvæðinu til útlanda en til útlanda fluttu þaðan 3212 umfram aðflutta. Aftur á móti fékk höfuðborgarsvæðið 666 einstaklinga umfram brottflutta í innanlandsflutningum frá öðrum landsvæðum. Á öllum landsvæðum var fjöldi brottfluttra hærri en fjöldi aðfluttra. Minnstur var munurinn á Norðurlandi vestra (-29) og Vestfjörðum (-75). Fjöldi brottfluttra var svipaður fyrir hin landsvæðin fjögur: Suðurnes (-450), Vesturland (-424), Austurland (-459) og Suðurland (-473).