Nýtt húsnæði og vefsvæði vígt

Nýtt húsnæði Sjúkratrygginga Íslands.
Nýtt húsnæði Sjúkratrygginga Íslands. mbl.is

Nýtt húsnæði Hjálpartækjamiðstöðvar Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) og nýtt vefsvæði SÍ voru tekin í notkun í dag þegar Álfheiður Ingadóttir, heilbrigðisráðherra og Benedikt Jóhannesson, stjórnarformaður SÍ, opnuðu formlega húsnæðið og vefinn.

„Hjálpartækjamiðstöð Sjúkratrygginga Íslands hefur flutt í rýmri og betri húsakynni að Vínlandsleið 16 í Reykjavík. Með nýju húsnæði mun aðstaða batna mikið til hagsbóta fyrir viðskiptavini og starfsfólk. Á 20 ára tímabili hefur starfsemi Hjálpartækjamiðstöðvar aukist verulega en hlutverk hennar er að annast afgreiðslu umsókna um hjálpartæki, veita faglega ráðgjöf og tryggja hagkvæma notkun hjálpartækja. Miðstöðin stuðlar þannig að hagkvæmum innkaupum,  og sér um að endurnýta hjálpartæki með viðhaldi og viðgerðarþjónustu á þeim. Áhersla er lögð á að miðla upplýsingum og fræðslu um hjálpartæki,“ segir í tilkynningu frá Sjúkratryggingum Íslands.


Nýtt vefsvæði stofnunarinnar hefur einnig verið tekin í notkun, en slóðin er: www.sjukra.is. Í grunninn er það umfangsmikil upplýsingaveita um sjúkratryggingar og var haft að leiðarljósi í uppbyggingu  svæðisins að hafa upplýsingar um réttindi almennings eins einfaldar og greinargóðar og mögulegt er. Vefsvæðið inniheldur einnig skref til aukinnar rafrænnar þjónustu við almenning en markmiðið er að rafræn gagnasamskipti og upplýsingagjöf við viðskiptavini stofnunarinnar, þ.e. almenning og heilbrigðisstarfsfólk, aukist til muna næstu 2-3 árin.
 


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert