Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst síðdegis í dag ábending þess efnis að sjóliðar á þýsku herskipi, sem liggur við bryggju við miðbakka í Reykjavík, hefðu gengið um miðborgina í dag og dreift til ungra stúlkna miðum þar sem boðið var til skemmtunar um borð í skipinu í kvöld.
Sú sem tilkynnti lögreglunni um skemmtunina var áhyggjufull móðir 14 ára stúlku sem fengið hafði boðsmiða. Á miðanum kom fram að veitt yrði áfengi um borð í skipinu. Að sögn varðstjóra var lögreglan mjög þakklát fyrir ábendinguna.
Lögreglan kannaði þegar í stað málið, varð sér úti um miða og setti sig í framhaldinu í samband við yfirmenn skipsins. Þeir voru hreint ekki kátir með uppátækið og ákváðu að tvöfalda gæslu við skipið, enda eiga engir Íslendingar að komast um borð. Lögreglan mun að auki fylgjast með ferðum til og frá skipinu.