Sex ára fangelsi

Hér sést hvar maðurinn skaut í gegnum rúðu á húsinu …
Hér sést hvar maðurinn skaut í gegnum rúðu á húsinu við Þverársel mbl.is/Júlíus

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag 25 ára gamlan karlmann, Birki A. Jónsson, í sex ára fangelsi fyrir skotárás og tilraun til manndráps í Þverárseli 15. nóvember s.l.  Dóminum verður áfrýjað til Hæstaréttar að sögn Brynjars Níelssonar, verjanda Birkis.

Birkir var ákærður fyrir tilraun til manndráps en hann játaði að hafa hleypt af haglabyssu á húsráðanda. Réttarhaldið var lokað vegna þáttar unnustu ákærða í málinu.

Unnustan var einnig handtekin í tengslum við málið, en hún hafði áður kært mann sem var í húsinu sem skotið var á fyrir kynferðisbrot. Unnustunni var sleppt úr haldi lögreglu eftir skýrslutöku.

Mikil mildi þótti að húsráðandi skyldi sleppa nánast ómeiddur en Birkir var ákærður fyrir að hafa bankað á útidyrnar og þegar húsráðandi opnaði, rekið byssuhlaupið í enni hans og síðan skotið fimm skotum úr haglabyssunni. Húsráðandanum hafði þá tekist að loka hurðinni og stóð fyrir innan hana. Tvö skotanna hæfðu hurðina en þrjú fóru inn í íbúðina í gegnum rúðu við útidyrnar.

Héraðsdómur segir í niðurstöðu sinni, að verknaður Birkis hafi verið stórhættulegur og beinst að lífi og heilsu mannsins sem hann skaut á. Af framburði ákærða og vitna verði ráðið að Birkir var í hefndarhug þegar hann hélt af stað með haglabyssu um nóttina. Þó verði ekki fullyrt að ásetningur hans til skotárásarinnar hafi myndast fyrr en húsráðandinn skellti aftur hurðinni.

Fram kemur í dómnum, að Birkir sagðist hafa verið búinn að neyta áfengis þetta kvöld. Þá hafði hann einnig tekið 100 ml af hormómalyfinu testosteron tvisvar sinnum í viku undanfarna þrjá mánaðiþegar þetta gerðist. Hann sagðist þó ekki hafa fundið fyrir skapgerðarbreytingum vegna þessarar lyfjanotkunar.

Auk fangelsisdómsins var Birkir dæmdur til að greiða húsráðandanum 900 þúsund krónur í bætur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert