Var búin að missa vonina

Betata Morzine Scott, sem bjargað var af Langjökli aðfaranótt mánudags ásamt 11 ára syni sínum, segist ekki hafa reynslu af jöklaferðum og viti því ekki hvernig henni datt í hug að bregðast við með þeim hætti sem hún gerði þegar ljóst varð að þau mæðgin höfðu orðið viðskila við snjósleðahópinn, sem þau voru í.

Þau mæðginin stöðvuðu vélsleðann, sem þau voru á, veltu honum á hliðina og notuðu vélarhlífina til að búa til skjól. Konan skýldi syni sínum einnig fyrir kuldanum. Björgunarsveitarmenn voru á einu máli um að Scott hefði brugðist við með hárréttum hætti.

Hún sagði við Morgunblaðið, að á meðan þau biðu eftir hjálp hefðu þau nokkrum sinnum heyrt vélarhljóð í fjarska og reynt að hrópa á hjálp en án árangurs. Betata Morzine sagði að hún hefði verið búin að missa vonina þegar hjálpin barst og sagðist vera afar þakklát björgunarmönnunum.

Hún hafði eftir eiginmanni sínum, að hann hefði þurft að láta leiðsögumenn hópsins vita að mæðginin væru horfin svo hægt væri að snúa við og leita.

Betata Morzine sagðist lengi hafa langað til að koma til Íslands en sagðist ekki vita hvernig hún myndi vinna úr þessari lífsreynslu. Hún kom hingað með eiginmanni sínum og tveimur sonum. Þeir feðgar fóru í Bláa lónið í dag.

Nánar verður rætt við  Betata Morzine Scott í Morgunblaðinu á morgun og sjónvarpsfréttum mbl.is á eftir.

Betata Morzine Scott ræðir við blaðamenn ásamt Ellen Ingvadóttur, túlki.
Betata Morzine Scott ræðir við blaðamenn ásamt Ellen Ingvadóttur, túlki. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert