Vekur von um árangur í Icesave

Jóhanna Sigurðardóttir
Jóhanna Sigurðardóttir mbl.is/Kristinn

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði í utandagskrárumræðu um stöðu efnahagsmála þjóðina ekki mega við frekari töfum í Icesave-málinu. Nýjustu fréttir frá Lundúnum vekja hins vegar von um árangur og vonast hún til að sjá jákvæða niðurstöðu og málið leitt til lykta á skjótan hátt.

Jóhanna sagði baráttuna í efnahagslífinu hafa orðið erfiðari á undanförnum vikum, eða eftir að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, synjaði lögum um Icesave staðfestingar. Hún benti m.a. á að peningastefnunefnd lýsti því yfir að vextir hefðu lækkað meira væri Icesave í höfn. Auk þess væri þess að gæta í spám um atvinnuleysi. Hún fagnaði þó samstöðu milli stjórnar og stjórnarandstöðu og sagði pólitískt karp ekki það sem þjóðin kallar eftir.

Mikilvægasta málið

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hóf umræðuna. Hann sagði ekkert annað mál skipta þingið jafn miklu máli þessi misserin en staða efnahagsmála. Fyrirheit ríkisstjórnarinnar hafi verið um uppbyggingu, skjaldborg og velferðarbrú. Því sé við hæfi að spyrja á ársafmæli stjórnarinnar hvar loforðin verði ekki efnd.

Bjarni sagði ríkisstjórnina alls ekki hafa náð árangri og ekki gefið þjóðinni von um að birta fari til. Vextirnir séu allt of háir, stórskaðleg gjaldeyrishöft enn við líði og engin trúverðug áætlun um afnám þeirra. Ríkisstjórnin hafi auk þess farið langt fram úr því sem samið var um í stöðugleikasáttamálanum þegar kemur að skattahækkunum. Hann benti á að ríkisstjórnin hafi lagt meira á skattahækkunarhliðina en minna á aðhaldshliðina. Það þýðir að enn bíði hrikalegur niðurskurður. 

Bjarni benti jafnframt á fréttir af fólksflótta og sagði að það megi ekki gera lítið úr því að ungt fólk flytji úr landi í stórum stíl. Hér verði að skapa hagvöxt og vinna hraðar að aðgerðum í atvinnumálum.

Komið að þolmörkum velferðarkerfisins

Jóhanna  tók undir með Bjarna hvað varðar vextina og gjaldeyrishöftin. Hún benti þó á að enn um sinn verið að halda varfærinni stefnu sem miðar að afnámi haftanna hægt. 

Hvað varðar niðurskurð sagði Jóhanna rétt, að gífurlega muni taka á við fjárlagagerð næsta árs. „Við erum komin að þolmörkum velferðarkerfisins,“ sagði Jóhanna og síðar að eftir aðgerðir ríkisstjórnarinnar verði skuldsetning ríkisins til lengri tíma litið 60% af vergri landsframleiðslu.

Jóhanna fór einnig yfir það, að viðskiptabankarnir væru nú fullfjármagnaðir og hafi borð fyrir báru til að mæta áföllum. Þeir geti tekið til við endurskipulagningu heimila og fyrirtækja og útvegað fjármagn til reksturs í íslensku atvinnulífi.

Efnahagsáætlunin sé skýr og miði m.a. að því að koma fótunum undir heimilin og fyrirtækin á eins skjótum tíma og hægt er. 

Frestar öllu sem hægt er að fresta

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði í umræðunum, að mjög lítið hefði komið frá ríkisstjórninni það ár sem hún hefði setið við völd. 

„Það gerist ekki neitt," sagði Sigmundur, „nema ríkisstjórnin grípi til þeirra róttæku aðgerða sem þarf til að bregðast við þeim vanda sem við erum í. Það átti ríkisstjórnin að gera á fyrstu vikunni en þess í stað frestar hún öllu sem hægt er að fresta," sagði hann.

„Við þurfum ríkisstjórn sem veitir framtíðarsýn og er tilbúin til að ráðast í þær róttæku aðgerðir sem þarf. Og þar er vandinn fyrst og fremst einn, hvort sem litið er til ríkisins, sveitarfélaga, fyrirtækja og heimila. Vandinn liggur í skuldsetningunni," sagði Sigmundur og bætti við að byrja þyrfti á að taka á skuldavanda heimilanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert