Aldrei andvígari ESB-aðild

Ögmundur Jónasson og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir
Ögmundur Jónasson og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir Ómar Óskarsson

Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, sagðist á Alþingi í dag aldrei hafa verið andvígari aðild Íslands að Evrópusambandinu. Tilefnið var fyrirspurn Einars K. Guðfinnssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks, um afstöðu Ögmundar í ljósi frétta af því að framkvæmdastjórn ESB mæli með aðildarviðræðum.

Einar minnti Ögmund á, að hann hafi verið meðal þeirra þingmanna sem samþykkti að sækja um aðild að ESB. Vísaði hann til fagnaðar Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, af fréttum af ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar - sem raunar verður tekin 24. febrúar nk. - og spurði hvort Ögmundur deildi fögnuði forsætisráðherra.

Ögmundur sagði ánægju sína og gleðilæti innan viðráðanlegra marka. Andstaða hans við aðild Íslands hefði hins vegar ekki breyst og hefði í reynd aldrei verið meiri en í dag. Ögmundur segist þó enn vilja fá úr því skorið í lýðræðislegum kosningum hvort þjóðin vilji ganga í sambandið. Það sé skýringin á stuðningi hans við aðildarumsókn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert