Yfir helmingur skattaskjóla heimsins tengist Bretlandi á einn eða annan hátt og hefur stjórn Verkamannaflokksins nánast ekkert beitt sér í að uppræta spillinguna sem þar fyrirfinnst frá því hún komst til valda 1997.
Þetta segir John Christiansen, hagfræðingur og formaður ritararáðs samtakanna Tax Justice Network, alþjóðlegs hóps fræðimanna og baráttufólks sem vinnur að rannsóknum á skattkerfum og ýmsu misferli.
Nægir þar að nefna ýmsa fjárglæfra sem viðgangast í skattaskjólum og á „aflandseyjum" og alþjóðleg undirboð skatta, oft af hálfu smáríkja.
Samtökin vinna með fjölmörgum óháðum samtökum en þau leitast við að setja þrýsting á fjármálastofnanir og stjórnvöld ýmissa ríkja til að herðar reglur um fjármálastarfsemi.
Christiansen segir að samfara alþjóðavæðingu fjármálamarkaða hafi ýmis vandamál verið skilin eftir óleyst sem sporni gegn gagnsæi á mörkuðum, ásamt því að grafa undan skattagrunni þjóðríkja, en þar er einkum horft til skattaskjóla.
„Við lítum á þetta sem alvarlegar misfellur í alþjóðahagkerfinu, misfellur sem hafa verið misnotaðar," segir Christiansen. „Næstum allt skuggahagkerfið sem liggur kreppunni til grundvallar var starfrækt í umdæmum þar sem ríkir leynd um fjármálastarfsemi. Það er því engin tilviljun að íslenskir bankar skuli hafa kosið að skrá hluta reksturs síns frá bresku eyjunni Mön, skattaskjóli þar sem leynd hvílir á fjármálastarfsemi."
Í skjóli bankaleyndar
– Gætirðu sett athafnir íslensku bankanna fyrir hrun í þetta alþjóðlega samhengi?
„Ég hygg að það sé sanngjarnt að segja að meirihluti alþjóðlegrar bankastarfsemi sem fól í sér skuldabréfavafninga og aðra verðbréfaða fjármálagerninga (e. collateralized debt obligation and securitized instruments) af hvaða gerð sem er hafi nánast eingöngu farið fram innan í umdæmum þar sem slík leynd hvílir á, af þeirri einföldu ástæðu að þau voru í mörgum tilvikum hönnuð til að misnota glufur í regluverkinu við undanskot á skatti.
Það sem þessir staðir hafa gert er að skilja eftir stórt gat í regluverkinu um alþjóðafjármálamarkaði sem bankar hafa verið mjög fúsir til að notfæra sér í ágóðaskyni."
Aðspurður um aðgerðir breskra jafnaðarmanna til að sporna gegn skattsvikum segir Christiansen að Tony Blair, forveri Gordons Browns í embætti forsætisráðherra, hafi heitið aðgerðum í þessa veru fyrir kosningarnar 1997 en svo lagt þau á hilluna eftir valdatökuna.
Jafnaðarmenn brutu niður regluverkið
„Þegar þeir komust til valda gerðu þeir ekki neitt til að styðja regluverkið heldur þvert á móti héldu áfram að vinda ofan af því. Afleiðingarnar af því hafa verið skelfilegar," segir Christiansen og bætir því aðspurður við að bresk stjórnvöld séu að kasta steinum úr glerhúsi þegar þau gagnrýni íslensku ríkisstjórnina fyrir að láta óábyrga fjármálastarfsemi viðgangast.
Rúmum áratug síðar hafi Brown hins vegar látið undan þrýstingi samtakanna og annarra félaga og tekið þessi mál upp á fundi G20-ríkjanna í fyrra, skömmu áður en jafnaðarmenn munu að líkindum hverfa úr stjórninni.
Stjórn Bush gerði það líka
Þá rifjar hann upp að eftir sigur George W. Bush í forsetakosningunum 2000 hafi Bandaríkjastjórn gefið skýrt merki um að hún myndi ekki styðja áform efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) í París um að herða regluverkið um markaðina, áform sem Christiansen og félagar hans hafi fylgst grannt með. „Þegar það gerðist áttuðum við okkur á því að eina leiðin til að ná árangri á þessu sviði væri að stofna alþjóðleg baráttusamtök," segir Christiansen og rifjar upp stofnfund samtaka sinna á Ítalíu 2002.
Christiansen, sem starfaði á þessum tíma við fjármálaráðgjöf í Lundúnum, er ekki bjartsýnn á að þetta muni breytast með líklegri valdatöku íhaldsmanna, undir stjórn Davids Camerons, í kosningunum framundan og vísar til þess að lögfræðingurinn John Stapleton, einn nánasti ráðgjafi Camerons, sé tengdur fyrirtæki á Cayman-eyjum þar sem hvorki fleiri né færri en 12.000 fyrirtæki séu með aðsetur. Þá eigi Ashcroft lávarður, varaformaður Íhaldsflokksins, í rekstri í skattaskjólinu Belize í Suður-Ameríku.
Icesave-byrðin má ekki verða of þung
Financial TimesSpurður hvort íslensku bankarnir hafi starfað í samræmi við það sem hefur viðgengist í heiminum síðustu ár tekur Christiansen undir það með þeim fyrirvara að hann sé ekki sérfróður um aðstæður hér. Almennt megi þó taka undir að íslensku bankarnir hafi gert það og nefnir hann sem dæmi að jafnvel þýskir bankar hafi verið á gráu svæði.
„Með hegðun sinni grófu bankar undan lýðræðinu. Bandarískir og þýskir bankar, svo ég nefni dæmi, gengu svo langt að hvetja efnafólk til að svíkja undan skatti […]. Við höfum áhyggjur af því að breskir eftirlitsaðilar séu ekki að rannsaka það sem gerðist með fullnægjandi hætti […]. Viðhorf þeirra var „Við viljum ekki vita af því"," segir hann.
Christiansen flytur erindi í sal Reykjavíkur Akademíunnar á fundi Attac-samtakanna JL-húsinu kl. 20 í kvöld, miðvikudag.