Íslenska Icesave-samninganefndin átti stuttan símafund með fjármálaráðherra, utanríkisráðherra og formönnum stjórnarandstöðuflokkanna í hádeginu í dag.
„Fundurinn var haldinn til að heyra stöðuna í viðræðunum,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.
Íslenska samninganefndin hefur ekki fundað með fulltrúum Breta og Hollendinga í Lundúnum frá því í gær og ekki liggur enn fyrir hvenær næsti fundur verður haldinm. „Samninganefndir beggja aðila eru hins vegar ennþá þarna úti,“ segir Sigmundur Davíð og kveður símafundinn í dag hafa verið gagnlegan. „Það er fínt að fá að fylgjast með gangi mála.
Fulltrúar þjóðanna er enn að skiptast á hugmyndum,“ segir hann og kveður þá skoðun ríkjandi, að menn eigi ekki að tjá sig of mikið um samningaferlið á meðan að það sé enn til skoðunar.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, minntist á viðræðurnar í Lundúnum í ræðu sinni á Viðskiptaþingi í dag og sagði ljóst að þær tafir, sem orðið hefðu á úrlausn Icesave málsins valdi því að óvissa um efnahagsframvindu aukist og hætta sé á að batinn á þessu ári verði veikari en gert var ráð fyrir. Það endurspeglist í meiri svartsýni í atvinnulífinu á horfurnar framundan.
„Í dag, þegar við sitjum hér á Viðskiptaþingi, eru fulltrúar okkar í Bretlandi og freista þess enn einu sinni að ná hagstæðari lausn í Icesave málinu. Ég vona svo sannarlega að þeim takist það. Þjóðin vonar það og almenningur á skilið að við gerum allt sem í okkar valdi stendur til þess að ná bestu lausn sem völ er á í þessu erfiða og flókna máli,“ sagði Jóhanna.