Fyllst varúðar var gætt

Björgunnarmenn við leit á Langjökli .
Björgunnarmenn við leit á Langjökli . Þór Kjartansson

Fyllstu varúðar var gætt í ferð Vélsleðaleigunnar á Langjökli sl. sunnudag þar sem þrír vanir leiðsögumenn voru á ferð með 24 manna hópi. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem fyrirtækið hefur sent frá sér

„Vegna umfjöllunar um mál erlenda ferðafólksins sem varð viðskila við hóp á vegum Vélsleðaleigunnar á Langjökli síðastliðinn sunnudag og bjargaðist giftusamlega, vilja forsvarsmenn fyrirtækisins koma eftirfarandi á framfæri.
Fólkið var í 24 manna hóp á vegum Vélsleðaleigunnar og voru þrír vanir leiðsögumenn með í för og einn bílstjóri. Fyllstu varúðar var gætt í þessari ferð, eins og í öllum ferðum sem farnar eru á vegum Vélsleðaleigunnar. Leiðsögumennirnir eru allir með mikla reynslu í ferðamennsku á hálendinu og þetta er í fyrsta sinn sem eitthvað slíkt hefur komið upp í ferð á þeirra vegum. Taka má fram að framkvæmdastjóri fyrirtækisins, sem var einn leiðsögumannanna í þessari tilteknu ferð, býr að 15 ára reynslu sem björgunarsveitarmaður.

Aðstandendur fyrirtækisins eru miður sín vegna málsins. Farið hefur verið yfir alla atburðarásina frá upphafi til enda með það fyrir augum að koma í veg fyrir að slíkt geti endurtekið sig. Jákvætt er, sem fram kom í fréttum Sjónvarps í kvöld, að unnið sé að almennum starfs- og öryggisreglum fyrir ferðaþjónustufyrirtæki. Öryggismál eru algert forgangsatriði í ferðum um hálendi Íslands.
Starfsfólk Vélsleðaleigunnar hefur lagt sig fram um að upplýsa allar staðreyndir málsins. Mestu skiptir að lærdómur verði dreginn af þessu óhappi. Það er hagur allra þeirra sem starfa við ferðaþjónustu á hálendinu og ferðaiðnaðarins á Íslandi í heild.
Við viljum að lokum ítreka þakklæti okkar til björgunarsveita og allra annarra sem aðstoðuðu okkur við leitina,“ segir í yfirlýsingunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert