Tómas Már Sigurðsson, formaður Viðskiptaráðs, gagnrýndi stjórnvöld harðlega á Viðskiptaþingi í dag fyrir breytingar, sem gerðar hafa verið á skattkerfinu að undanförnu. Sagði Tómas að ef stjórnvöld vilji verja lífskjör verði þau að sýna meiri framsýni í skattastefnu sinni.
Þá sé stærsta verkefni stjórnvalda til skamms tíma að draga úr óvissu því fyrirtæki geti illa búið við þá viðvarandi óvissu sem ríki á flestum sviðum hér á landi.
„Íslenska skattkerfinu, sem á síðastliðnum áratug var orðið mjög samkeppnishæft, hefur nú verið umturnað á skömmum tíma. Aukið flækjustig, meiri kostnaður, hærri jaðarskattar, minni hvati til verðmætasköpunar, lakara fjárfestingarumhverfi, hærri vaxtakostnaður, og aukin hætta á skattaundanskotum eru allt fylgifiskar þeirra breytinga sem stjórnvöld hafa ráðist í," sagði Tómas.
Hann sagði, að í könnun, sem Viðskiptaráð lét gera meðal atvinnurekenda, komi fyrir fram að forsvarsmenn um helmings allra fyrirtækja telji að skattabreytingar stjórnvalda muni leiða til fækkunar starfsfólks innan síns fyrirtækis á komandi misserum.
„Það verður því ekki betur séð en að þessi skattastefna stjórnvalda muni skila þveröfugri niðurstöðu og hrekja burt fjármagn og verðmætt vinnuafl. Ef endanlegt markmið stjórnvalda er að verja lífskjör í landinu verða þau að sýna meiri framsýni í skattastefnu sinni," sagði Tómas Már.
Hann bætti við, að í stað þeirra gagngeru breytinga, sem nýlega komu til framkvæmda, hefðu stjórnvöld átt að setja sér einfalt markmið um að hér yrðu engir nýir skattar lagðir á. Með því væri hinsvegar ekki útilokað að stjórnvöld auki skatttekjurmeð skattahækkunum á fyrirliggjandi stofnum. Að sama skapi ættu stjórnvöld að leggja mun ríkari áherslu á hagræðingu í rekstri ríkissjóðs.
„Viðskiptaráð hefur ítrekað bent á hversu illa hefur tekist að hemja útþenslu hins opinbera á undanförnum árum. Á síðusta áratug hafa útgjöld ríkissjóðs vaxið um 50% að raungildi. Á sama tíma hefur ríkisstarfsmönnum fjölgað um 30%, starfsfólki í opinberri stjórnsýslu um 55% en störfum á almennum vinnumarkaði hefur einungis fjölgað um 3%. Samkvæmt þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins frá því í október stefnir í að heildarútgjöld hins opinbera sem hlutfall af landsframleiðslu nemi 57% árið 2009 og verða þá þau hæstu innan OECD. Þetta er þrátt fyrir að hið opinbera þurfi ekki að standa undir útgjaldaliðum sem vega þungt hjá öðrum löndum, s.s. rekstri hervarna og fjármögnun lífeyrissjóða," sagði Tómas Már Sigurðsson.