Reka þarf ríkið á ódýrari hátt

Hluti gesta Viðskiptaþings í dag.
Hluti gesta Viðskiptaþings í dag. mbl.is/GSH

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði á Viðskiptaþingi í dag, að ekki yrði undan því vikist að ríkið taki á sig stærri hlut við að koma efnahagslífinu á kjöl á nýjan leik. Þá þurfi að reka ríkið og stofnanir þess á einfaldari og ódýrari hátt en nú er gert.

„Aðhaldið er mikið á þessu ári og óspart er skorið niður í opinberum rekstri. Á tveimur árum mun halli ríkissjóðs fara úr rúmum 200 milljörðum í tæpa 100 milljarða. Það verður því að nást árangur í sameiningu ráðuneyta og stofnana og verkefna og endurskoðun á starfsemi hins opinbera ef okkur á að takast að knýja fram einfaldari og betri rekstur. Það er stórt verkefni og mun reyna á stjórnkerfið til hins ítrasta. En undan því verður heldur ekki vikist ef vel á að fara," sagði Jóhanna. 

Hún vitnaði í skýrslu Viðskiptaráðs, sem liggur fyrir þinginu, þar sem segir að stærsta áskorun stjórnmálamanna sé að standast ágang þrýstihópa og láta heildarhagsmuni ráða för við ráðstöfun fjármuna.

„Þetta eru orð í tíma töluð þegar við sjáum volduga hagsmunahópa rísa upp á afturlappirnar og gera hróp að stjórnvöldum gegnum auglýsingastofur, fjölmiðla og áróðursherferðir. Þá er vissulega nauðsyn að hafa sterk bein og vonandi fáum við stuðning Viðskiptaráðs til þess að standast áganginn," sagði Jóhanna og uppskar klapp fundargesta.

Handstýring fjármálakerfisins upphafið að hruninu 

Jóhanna sagði einnig í ræðu sinni, að þeim sjónarmiðum hefði verið haldið fram að ríkisstjórnin ætli að láta það afskiptalaust að sömu persónur og leikendur og fóru með stórt hlutverk í fjármála- og viðskiptalífinu fyrir hrun, verði áfram við stjórnvölinn.

„Af þessu tilefni vil ég láta koma fram að ég er algerlega mótfallin því að stjórnmálamenn handstýri fjármálakerfinu. Slík handstýring er nú talin upphafið að bankahruninu þegar einkavæðing bankanna fór út af sporinu árið 2002 og sérvöldum aðilum voru afhent völdin í bankakerfinu án þess að þeir reiddu fram annað en lánsfé. Og því fór sem fór. Það verður að fara fram ítarleg rannsókn á þessum afdrifaríka kafla í sögu fjármálakerfis þjóðarinnar þar sem allt verður krufið til mergjar," sagði Jóhanna.

Ræða forsætisráðherra á Viðskiptaþingi

Jóhanna Sigurðardóttir flytur ræðu sína á Viðskiptaþingi.
Jóhanna Sigurðardóttir flytur ræðu sína á Viðskiptaþingi. mbl.is/GSH
Stjórnmálaleiðtogar voru í hópi gesta Viðskiptaþings.
Stjórnmálaleiðtogar voru í hópi gesta Viðskiptaþings. mbl.is/GSH
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert