Seðlabanki Íslands stofnar eigið eignaumsýslufélag

Seðlabanki Íslands hefur stofnað einkahlutafélagið Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf. (ESÍ). Félagið var stofnað 30. desember síðastliðinn samkvæmt gögnum frá fyrirtækjaskrá, en skráður stjórnarformaður þess er Már Guðmundsson seðlabankastjóri.

Tilgangur ESÍ er eignarhald á kröfum og fullnustueignum Seðlabanka Íslands í kjölfar bankahrunsins. Þau veð sem Seðlabankinn leysti til sín í kjölfar bankahrunsins eru því inni í félaginu, þar með talinn danski bankinn FIH. Einnig hefur ESÍ til umsýslu kröfur á fjármálafyrirtæki sem ganga nú í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu.

Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabanka Íslands hefur flutningur eignanna inn í einkahlutafélagið engin áhrif á samstæðureikning Seðlabankans. Bankinn segir jafnframt að ESÍ verði lagt niður þegar allar eignir þess hafa verið seldar. Mun þá koma í ljós hvert raunverulegt tap Seðlabankans verður af veðlánaviðskiptum við hina föllnu íslensku banka.

Óljós tímarammi

Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum verða eignir félagsins seldar eftir því sem markaðsaðstæður leyfa. Erfitt sé að marka tímaramma fyrir félagið, þar sem sölutækifæri séu háð þróun efnahagsmála hérlendis sem og erlendis. Bandaríski seðlabankinn hefur starfrækt sambærileg eignarhaldsfélög, samkvæmt upplýsingum frá Seðlabanka Íslands. Sömu meðulum hafi verið beitt í Svíþjóð.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert