Nauðungarsölu á íbúðarhúsnæði verður frestað um þrjá mánuði, samkvæmt frumvarpi sem Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra kynnti í ríkisstjórn í gær. Verður fresturinn framlengdur þannig að engin uppboð á íbúðarhúsnæði sem nú blasa við fara fram fyrr en í júlí og þau síðustu í lok árs.
„Þetta gefur stjórnvöldum svigrúm til þess að sníða agnúa af lögum um greiðsluaðlögun auk þess sem fólk í vanda fær svigrúm til þess að endurskipuleggja sín mál,“ sagði Ragna. Um mál fólks í erfiðri skuldastöðu segir hún mikilvægt að línur verði skýrari svo stjórnvöld geti brugðist við.
Vísar hún þar meðal annars til dóms sem féll í héraði síðastliðinn föstudag. Þar voru myntlán tengd íslensku krónunni dæmd óheimil. Í því máli segir ráðherra niðurstöðu Hæstaréttar mikilvæga. sbs@mbl.is