Á þriðja hundrað jarðskjálftar

Á þriðja hundrað jarðskjálftar hafa mælst frá miðnætti á Reykjaneshrygg. Stærsti jarðskjálftinn mældist 3,6 stig, þegar jarðskjálftafræðingar Veðurstofunnar höfðu yfirfarið gögn sín, en fyrstu mælingar höfðu sýnt 4,1 stig.

Upp úr miðnætti í nótt hófst jarðskjálftahrina á Reykjaneshrygg en mesta virknin var frá 04:30 til 06:00 og mældist á jarðskjálftastöðvum um allt
land, samkvæmt upplýsingum Veðurstofu Íslands.

Í morgun höfðu á þriðja hundrað skjálftar mælst, flestir við Geirfugladrang u.þ.b. 40 km suðvestur af Reykjanestá.

Í byrjun síðustu viku varð einnig hrina á þessum slóðum.

Jarðskjálftahrinur eru nokkuð algengar á Reykjaneshrygg og má t.d. nefna að 1. nóvember á síðasta ári mældust þar nokkur hundruð jarðskjálftar og nokkrir þeirra um og yfir 4 stig. Heldur hefur dregið úr virkninni eftir því sem liðið hefur á morguninn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert