Baráttufundur í Ólafsvík

Snæfellingar ræða um áhrif fyrningarleiðar á byggðarlögin á baráttufundi í …
Snæfellingar ræða um áhrif fyrningarleiðar á byggðarlögin á baráttufundi í kvöld. Rax / Ragnar Axelsson

Almennur baráttufundur um sjávarútvegsmál verður haldinn í Ólafsvík í kvöld. Að fundinum standa sveitarfélögin á Snæfellsnesi, verkalýðsfélagið og félög útvegsmanna og smábátasjómanna.

Á fundinum verður kastljósinu einkum beint að efnahags- og samfélagslegum áhrifum sem ríkjandi óvissa um framtíðarskipan í sjávarútvegi hefur á fiskvinnslufyrirtæki, fiskvinnslufólk, smábátaútgerð og mannlíf yfirleitt í byggðarlögum á Snæfellsnesi, meðal annars vegna hugmynda um svokallaða fyrningarleið, segir í fundarboði.

Víðtæk samstaða náðist um að efna til baráttufundarins. Til hans boða Grundarfjarðarbær, Snæfellsbær, Stykkishólmsbær, Smábátafélagið Snæfell, Útvegsmannafélag Snæfellsness og Verkalýðsfélag Snæfellinga. 

Ræðumenn verða Erla Kristinsdóttir, fiskverkandi á Rifi, Þorsteinn Sigurðsson, varaformaður Verkalýðsfélags Snæfellinga, Rósa Guðmundsdóttir, verkstjóri í fiskvinnslu í Grundarfirði, Kristín Björk Gilsfjörð, sjómannskona á Hellissandi, Heiðar Magnússon útgerðarmaður smábáts í Ólafsvík, Guðbjartur Hannesson, formaður stafshóps um endurskoðun laga um fiskveiðistjórnun og Kristinn Jónasson, bæjarstjóri í Snæfellsbæ. Erla Friðriksdóttir, bæjarstjóri í Stykkishólmi, verður fundarstjóri.

Fundurinn verður í félagsheimilinu Klifi í kvöld og hefst klukkan 20.30.

Bein vefútsending verður frá fundinum á heimasíðu Snæfellsbæjar, snaefellsbaer.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka