Bretar fallast á eftirgjöf

Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands.
Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands. Reuters

Bresk stjórnvöld eru sögð vilja fallast á að breyta skilmálum Icesave-lánsins og draga úr þeim vaxtagreiðslum, sem Íslendingar þurfa að standa skil á. Þetta er fullyrt í breska viðskiptablaðinu Financial Times í dag.

Blaðið segir, að Alistair Darling, fjármálaráðherra Breta, hafi veitt heimild fyrir þessari eftirgjöf í ljósi þess að útlit sé fyrir, að Icesave-lögin, sem staðfesta samninga sem gerðir voru í október í fyrra, verði kolfelld í þjóðaratkvæðagreiðslu á Íslandi.

Darling krefjist þess að breskir skattgreiðendur verði að fá fé sitt til baka en sé opinn fyrir því að draga úr vaxtabyrðinni, sem fylgir lánunum

Financial Times segir, að viðræður standi nú yfir um nýja skilmála lánsins. Breska fjármálaráðuneytið sé að skoða tvær leiðir til að minnka vaxtakostnað Íslendinga. Upphaflegi samningurinn gerði ráð fyrir því að Íslendingar greiddu Bretum um það bil 2,4 milljarða punda á 15 árum með föstum 5,5% vöxtum. Lánið verði afborgunarlaust fyrstu sjö árin en beri þá vexti.   

Einn möguleiki sé að fella niður vexti af láninu á hluta af afborgunarlausa tímabilinu.  Annar möguleiki sé að vextir verði breytilegir á hluta lánatímans.  Financial Times segir, að báðir þessir kostir feli það í sér, að heildarfjárhæðin, sem breska fjármálaráðuneytið fái á endanum, sé lægri en upphaflega var gert ráð fyrir. Það sé umtalsverð eftirgjöf af hálfu Breta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka