Fær ekki dánarbætur vegna slyss

mbl.is/Brynjar Gauti

Hæstiréttur hefur staðfest niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í deilu um dánarbætur úr fjölskyldutryggingu vegna banaslyss, sem varð þegar skemmtibátur steytti á skeri á Viðeyjarsundi í september 2005.

Í slysinu létust karlmaður og kona, sem var sambúðarfólk. Sonur karlmannsins leitaði dóms um rétt sinn til dánarbóta úr fjölskyldutryggingu, sem faðir hans hafði tekið hjá Tryggingamiðstöðinni.

Hæstiréttur segir, að við úrlausn málsins hafi reynt á skýringu ákvæða vátryggingarskilmála, þar sem fram kom að réttur maka eða sambýlismaka vátryggðs til greiðslu dánarbóta gengi framar rétti barna hans.

Hæstiréttur segir óumdeilt var að maðurinn hafi verið í óvígðri sambúð með konunni þegar slysið varð. Samkvæmt gögnum málsins liggi  fyrir að maðurinn hafi látist þegar báturinn, sem þau voru um borð í, steytti á skeri. Konan drukknaði tæpri hálfri klukkustund síðar er bátnum hvolfdi. 

Því verði talið, að tveir aðskildir atburðir hefðu valdið því að maðurinn og konan létust og konan væri því rétthafi dánarbóta eftir manninn. Sú niðurstaða var talin leiða til þess að bætur rynnu inn í dánarbú konunnar til hagsbóta fyrir erfingja hennar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert