Ferðamenn skila 155 milljörðum

Ef fram heldur sem horfið koma hingað milljón erlendir ferðamenn …
Ef fram heldur sem horfið koma hingað milljón erlendir ferðamenn árið 2020. mbl.is / Rax

Áætlað er að tekjur af erlendum ferðamönnum hafi numið 155 milljörðum króna á síðasta ári. Er það um 21% raunaukning frá árinu á undan. Ferðaþjónustan er því ein af stærstu gjaldeyrisskapandi greinum þjóðarinnar, hlutdeild hennar hefur verið um 18%.

Í nýútgefnum tölfræðibæklingi Ferðamálastofu má finna ýmsar upplýsingar um íslenska ferðaþjónustu. Meðal efnis má nefna niðurstöður úr könnunum meðal erlendra gesta á Íslandi 2008 til 2009 og könnun meðal Íslendinga um eigið land 2009, auk samantektar um ferðaþjónustureikninga, ferðamanna- og gistináttatalningar.

Ólík árstíðabundin sveifla eftir þjóðernum
Af þeim 494 þúsund erlendum gestum sem heimsóttu landið á síðastliðnu ári komu langflestir í gegnum Leifsstöð en þar hefur Ferðamálastofa um árabil haldið úti talningum.

Mikil árstíðabundin sveifla er í komum ferðamanna. Þannig eru heimsóknir Þjóðverja, Frakka, Spánverja og Ítala að mestu bundnar við sumarmánuðina þrjá, júní, júlí og ágúst, á meðan Bretar og Norðurlandabúar dreifast meira yfir árið.

Árstíðabundinnar sveiflu gætir ennfremur í ferðum Íslendinga um eigið land en langflestir ferðast að sumri til.

Gista tíu nætur að sumri
Erlendir ferðamenn gista samkvæmt könnunum að jafnaði 5,5 nætur að vetri og 10 nætur að sumri. Íslendingar gistu hins vegar að jafnaði 14,3 nætur á ferðalögum innanlands árið 2009.

Gistinætur erlendra ferðamanna á hótelum voru um ein milljón árið 2009 en gistinætur Íslendinga um 260 þúsund.

Íslendingar sækja í ódýrari gistingu samkvæmt könnun Ferðamálstofu en af þeirri könnun má ennfremur sjá að Íslendingar eru ekki að greiða fyrir náttúrutengda afþreyingu í miklum mæli.

Notkun og aðgengi að netinu eykst hröðum skrefum. Meira en tvöfalt fleiri erlendir gestir á Íslandi fá upplýsingar um land og þjóð á netinu en fyrir tíu árum.

Milljón gestir 2020
Ferðamönnum hefur fjölgað um 6,8% milli ára að jafnaði síðastliðin tíu ár og ef fram heldur sem horfir má búast við einni milljón erlendra gesta til Íslands árið 2020.

Til að tryggja áframhaldandi vöxt og velgengni íslenskrar ferðaþjónustu telur Ferðamálastofa að búa þurfi vel í haginn til að ferðaþjónusta geti þróast í sátt við land og þjóð.

Vefur Ferðamálastofu.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka