Um 300 manns mættu á baráttufund um sjávarútveg sem haldinn var í félagsheimilinu Klifi í Ólafsvík í kvöld. Meðal fundargesta voru Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra og Einar K. Guðfinnsson, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra.
Umræðuefnið var þau áhrif sem ríkjandi óvissa um framtíðarskipan í sjávarútvegi hefur á fiskvinnslufyrirtæki, fiskvinnslufólk, smábátaútgerð og mannlíf á Snæfellsnesi, m.a. vegna hugmynda um fyrningarleið.
Ræðumenn voru Erla Kristinsdóttir fiskverkandi, Þorsteinn Sigurðsson, varaformaður Verkalýðsfélags Snæfellinga, Rósa Guðmundsdóttir, verkstjóri fiskvinnslu í Grundarfirði, Kristín Gilsfjörð, sjómannskona, Heiðar Magnússon útgerðarmaður og Guðbjartur Hannesson, formaður starfshóps um endurskoðun laga um fiskveiðistjórnun.