FT segir Breta og Hollendinga eiga að gefa eftir

Vefsíða Icesave
Vefsíða Icesave DYLAN MARTINEZ

Yfirgangurinn gegn Íslandi vegna Icesave er kominn út á ystu nöf segir í leiðara sem birtist á vef The Financial Times. Tekið er fram að nokkuð öruggt sé að íslenska  þjóðin komi til með að hafna núverandi samningum um að hún ábyrgist heildarkostnað mistaka sem löndin þrjú og öll Evrópa eigi sök á.

Enginn hagnist á slíkum endalokum. Fyrir því virðist nú vera skilningur og áhugi á að ná málamiðlun til að koma í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna. Hins vegar séu góðar fyrirætlanir ekki nóg. Ríkisstjórnir Hollendinga og Breta verði að fella niður þær óforsvaranlegu kröfur sem þeir hafi þröngvað upp á nágranna sinn.

Fall Landsbankans hafi ekki aðeins verið afleiðing óforskammaðra fjármálamanna heldur einnig evrópsks fjármálaregluverks sem Hollendingar og Bretar hafi haft miklu meiri áhrif á en nokkurn tíma Íslendingar auk þess sem fáir hafi hagnast meira á því en þeirra eigin bankar.

Ábyrgð íslenska innstæðutryggingasjóðsins á innstæðum í Landsbankanum sé óumdeild. Hins vegar sé krafa London og Amsterdam um ríkisábyrgð á láni til að bjarga innstæðueigendum umdeilanleg. Íslenskir skattgreiðendur þurfi að borga það sem ekki fáist upp í skuldir úr þrotabúinu með 5,5% vöxtum.

Segir tvennt veikja kröfu Hollendinga og Breta

Í leiðaranum segir að tvennt veiki þessa kröfu. Í fyrsta lagi séu evrópsk lög í besta falli óskýr hvað varðar ríkisábyrgð á innstæðum. Í öðru lagi, létu Bretar og Hollendingar sína eigin skattgreiðendur aldrei borga borga reikning sem næmi frá þriðjungi til helmings vergrar landsframleiðslu, sama hvað lögin segðu, ef ekki fengist nægilegt fé úr tryggingasjóði til að greiða það sem á vantaði í peningalítinn tryggingasjóð. Þess krefjist þeir hins vegar af  Íslendingum.

Í leiðaranum er farið yfir lagasetninguna í ágúst þar sem settir voru fyrirvarar við samninginn, og að Hollendingar og Bretar hafi hafnað þeim fyrirvörum sem síðan hafi leitt til fyrirhugaðrar þjóðaratkvæðagreiðslu.

Leiðarinn endar á því að skorað er á London og Amsterdam að hætta yfirganginum og taka tilboðinu um fyrirvarana. Eða taka eignir Landsbankans upp í skuldina og afskrifa það sem út af standi. Það kosti ekki meira að laga þeirra hlið grindverksins.

Leiðara FT má finna  hér

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert