Stjórn Geðhjálpar hefur sent frá sér athugasemd þar sem umfjöllun Kastljóss þann 17. febrúar sl. um meint afbrot geðsjúks manns er harðlega gagnrýnd. Gefið sé í skyn að sjúkdómurinn lægi að baki meintum brotum. Samtökin segjast hvorki leggja mat á hugsanlega sekt eða sakleysi mannsins. Hins vegar leggi þau áherslu á að í umfjöllun um geðsjúkdóma, geðsjúka og hagi þeirra gæti hvorki fordóma né vanþekkingar. Samtökin segjast vilja vekja athygli á þeirri staðreynd að geðsjúkir fremji hvorki fleiri né alvarlegri brot en þeir sem taldir eru heilir á geði. Athugasemdin í heild sinni er hér fyrir neðan.
„Athugasemd frá stjórn landssamtakanna Geðhjálp
Stjórn landssamtakanna Geðhjálp gagnrýnir harðlega umfjöllun Kastljóss þriðjudaginn 17. febrúar þar sem meint afbrot geðsjúks manns var í fyrirrúmi. Svo mátti skilja að sjúkdómurinn lægi að baki hinum meintu afbrotum, og að ekki væri mark á manninum takandi vegna sama sjúkdóms. Einnig kom fram í umfjölluninni makalaus vanþekking á geðsjúkdómum sem Geðhjálp hlýtur að gera kröfu um að sjáist hvorki né heyrist í þáttum eða fréttum í fjölmiðli allra landsmanna.
Landssamtökin Geðhjálp leggja hvorki mat á hugsanlega sekt eða sakleysi mannsins né réttmæti dóma yfir honum. Landssamtökin leggja hins vegar mikla áherslu á að í umfjöllun um geðsjúkdóma, geðsjúka og hagi þeirra gæti hvorki fordóma né vanþekkingar og lýsa sig reiðubúin til umræðu og upplýsinga á hvaða vettvangi sem er. Samtökin vilja af þessu tilefni vekja athygli á þeirri staðreynd að geðsjúkir fremja hvorki fleiri né alvarlegri brot en þeir sem taldir eru heilir á geði.“