Íslendingar ræði ESB vandlega

Diana Wallis.
Diana Wallis.

Íslendingar eiga ekki að ganga í Evrópusambandið nema að undangenginni vandaðri þjóðfélagsumræðu, sagði Diana Wallis, varaforseti Evrópuþingsins, í fyrirlestri í Háskóla Íslands í dag. Áður en af inngöngu verður þurfum við sem þjóð að vera sannfærð um að það sé það sem við raunverulega viljum, og jafnframt að sannfæra ESB um að Íslendingar vilji tilheyra ESB.

Ekki ber að líta á inngöngu í Evrópusambandið sem skyndilausn á þeim vanda sem Íslendingar eiga við að etja, sagði Wallis, enda sýni efnahagsástandið í Grikklandi að hvorki evran né ESB sé töfralausn á efnahagslegum vandamálum.

Taki þátt í að móta framtíðarstefnuna

Ef hins vegar Íslendingar ákveða að vera þátttakendur í samstarfi Evrópuríkja, sagði Wallis mikilvægt að Íslendingar gengju alla leið og yrðu fullgildir meðlimir Evrópusambandsins, þar sem fulltrúar Íslands hefðu tækifæri til að taka þátt í að móta framtíðarstefnu sambandsins og gæta hagsmuna Íslands.

Wallis sagðist ekki vera í vafa um að verði af inngöngu muni Íslendingar senda hæfileikaríka fulltrúa á Evrópuþingið sem muni berjast fyrir þeim miklu hagsmunum sem felast í yfirráðum okkar yfir sjávarmiðunum. Þá benti hún á að inni á þinginu mynda fulltrúar gjarnan stjórnmálaeiningar, sem auðveldi fámennum þjóðum að berjast fyrir hagsmunum sínum.

Eins og margoft hefur komið fram sagði Wallis að formlega sé innganga Íslands í ESB og afgreiðsla Icesave tvö aðskilin mál. Tæknilega séð geti Bretar og Hollendingar beitt neitunarvaldi þegar umsókn Íslands verður tekin fyrir, en ólíklegt sé að þjóðirnar grípi til þess nema í samvinnu við aðrar þjóðir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert