Krafði dótturson sinn um 9 milljónir

Hæstiréttur vísaði í dag frá dómi kröfu konu á áttræðisaldri, sem krafði dótturson sinn um tæplega 9 milljónir króna. Konan afsalaði dóttursyninum lóð og sumarhúsi árið 1993 en sagði það hafa verið gert til að koma eigninni undan aðför skuldheimtumanna. Dóttursonurinn var 9 ára þegar þetta gerðist.

Hæstiréttur segir, að í málinu hafi legið fyrir upplýsingar um að bú eiginmanns konunnar, sem nú er látinn, hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta árið 1995 og búið talið vera eignalaust.

Segir Hæstiréttur að undanskot eigna, eins og konan sagði afsalið hafa byggt á, væri refsivert samkvæmt hegningarlögum. Ekki yrði því leitað atbeina dómstóla til að koma fram eða fylgja eftir ráðgerðum af þessu tagi. Vísaði dómurinn málinu frá og gerði konunni að greiða dóttursyni sínum 600 þúsund krónur í málskostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert