Rykbinding vegna svifryks

Svifryk í Reykjavík
Svifryk í Reykjavík Rax / Ragnar Axelsson

Sólarhringsstyrkur svifryks hefur farið nokkrum sinnum yfir heilsuverndarmörk í vikunni, en talið er að þurrviðri ásamt kulda og stilltu lofti hafi loftmengun í för með sér. Samkvæmt upplýsingum frá umhverfis- og samgöngusviði Reykjavíkurborgar munu nokkrar umferðagötur verða rykbundnar aðfaranótt næsta mánudags ef veðurfar verður með svipuðu móti og í þessari viku. 

Anna Rósa Böðvarsdóttir heilbrigðisfulltrúi telur líklegt að styrkurinn fari einnig yfir heilsuverndarmörk í dag 18. febrúar og líklega einnig einhverja af næstu dögum ef veðurspáin stenst. Styrkur svifryks mældist milli 16 og 16:30 í dag 85 míkrógrömm á rúmmetra en meðaltalstyrkur frá miðnætti var á sama tíma 56. Heilsuverndarmörkin eru við 50 míkrógrömm á rúmmetra.

Viðbragðsteymi Reykjavíkur um loftmengun telur árangursríkt að rykbinda göturnar áður en bílaumferðin hefst aftur mánudaginn 22. febrúar og vonar að sú binding dugi í nokkra daga. Er mælt með fyrirbyggjandi aðgerðum borgarbúa eins og að skilja einkabílinn eftir heima og ganga, hjóla, fara í strætó eða samferða öðrum til og frá vinnu eða skóla.

Styrkur svifryks mældist 80 míkrógrömm á rúmmetra á mælistöðinni við Grensásveg mánudaginn 15. Febrúar en heilsuverndarmörkin eru 50. Þriðjudaginn 16. febrúar fór styrkurinn aftur yfir heilsuverndarmörk við Grensás og 17. febrúar fór styrkurinn yfir heilsuverndarmörk á farstöðinni á horni Miklubrautar og Stakkahlíðar.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert