Samninganefndin á leið heim

Íslenska samninganefndin, sem verið hefur í Lundúnum í vikunni og rætt við breska og hollenska embættismenn, er á leið til Íslands og mun á morgun eiga fund með formönnum stjórnmálaflokkanna.

Fram kom eftir fund flokksleiðtoga í forsætisráðuneytinu nú undir kvöld, að gert sé ráð fyrir að fjármálaráðherrar landanna þriggja ræðist við um Icesave-málið.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði eftir fundinn í kvöld að góð samstaða hefði verið um þær áherslur, sem samninganefndin hefði lagt fram í málinu og hún hefði haldið fast við það umboð, sem hún fékk hér áður en hún hélt til Lundúna. 

Á fundinum var rætt um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og væntanlega þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-lögin og fram kom að líklega myndi skýrslan koma út á svipuðum tíma og þjóðaratkvæðagreiðslan er fyrirhuguð, það er 6. mars.  Páll Hreinsson, sem situr í rannsóknarnefndinni, og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti þingsins, komu á fund flokksleiðtoganna í kvöld og ræddu þetta mál.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert