Steingrímur: Engin ríkisábyrgð

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon. Heiðar Kristjánsson

„Í sjálfu sér er ekki deilt um það að það stendur hvergi í tilskipuninni né í lögum þeirra landa sem hafa innleitt hana að það sé um beina ríkisábyrgð að ræða. Það er enginn að halda því fram,“ segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra um ummæli forstjóra norska tryggingasjóðsins. 

Arne Hyttnes, forstjóri norska innistæðutryggingasjóðsins, heldur því þannig fram í Morgunblaðinu í dag að hvergi sé kveðið á um ríkisábyrgð í EES tilskipuninni um innistæðutryggingar. Norska ríkið þyrfti því ekki að bæta innistæðueigendum í öðrum ríkjum tjón ef sambærilegt mál og fall Landsbankans hefði komið upp í Noregi.

Ekki einfalt mál fyrir Norðmenn

Steingrímur spyr á móti hvernig Norðmenn hefðu brugðist við sambærilegu áfalli. 

„En hvort norski tryggingasjóðurinn hefði ekki sjálfur ráðið við að bæta tjón sem yrði einhversstaðar í útibúum norsks banka annars staðar, hvort að norska ríkið hefði þá komist undan því með öllu. Það er önnur saga.

Ég er ekki viss um að sá hinn sami maður geti fullyrt það ef einhverjar hliðstæðar aðstæður hefðu komið upp gagnvart Noregi eins og á við um okkur. Ég vísa nú bara í afstöðu norskra stjórnvalda sjálfra. Ég held að það væri þá best að Sigbjørn Johnsen [fjármálaráðherra Noregs] svaraði þessum norska embættismanni. Við sjáum hvað hann segir um skyldur Íslands í þessum efnum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka