Umræða um stuðning Íslands við innrásina í Írak

Ögmundur Jónasson
Ögmundur Jónasson mbl.is/Ómar

Tvær þingsályktunartillögur sem varða aðdraganda stuðningsyfirlýsingar Íslendinga við innrásina í Írak árið 2003 eru til umræðu á Alþingi. Annars vegar um birtingu skjala og annarra upplýsinga vegna ákvörðunarinnar og hins vegar um skipan rannsóknarnefndar um aðdragandann.

Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, er flutningsmaður fyrir tillögunnar. Í henni segir orðrétt: "Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra og utanríkisráðherra að sjá til þess að birt verði öll skjöl og allar aðrar upplýsingar sem fyrir liggja frá ársbyrjun 2002 til desember 2003 sem varpa ljósi á ákvörðun þáverandi ríkisstjórnar um stuðning Íslands við innrás Bandaríkjamanna og Breta og annarra þjóða í Írak árið 2003."

Ögmundur sagði enn margt á huldu varðandi það hvernig þáverandi ríkisstjórn hélt á málum enda hafi engar opinberar almennar umræður farið fram í aðdraganda ákvörðunarinnar. Hann segir það eðlilegt að upplýst verði um aðkomu íslenskra stjórnvalda, stjórnmálamanna og embættismanna.

Ögmundur las upp yfirlýsingu talsmanns bandaríska utanríkisráðuneytisins, Richard Boucher, frá 18. mars 2003, en í henni voru nefnd þau 30 ríki sem studdu innrásina, þar á meðal Ísland. Einnig segir: "Hvert ríki leggur sitt af mörkum á þann hátt sem það telur helst viðeigandi. Sum af þessum ríkjum, ég geri ráð fyrir að öll þessi ríki hafi talað opinberlega um hvað þau eru að gera. …"

Ekki hverjir heldur hvernig

Steinunn sagðist oft vera spurð að því hvort það þyrfti að rannsaka málið, þegar liggur fyrir hverjir tóku ákvörðunina. Hún sagði málið ekki snúa að því heldur hvernig stóð á því að aðeins tveir menn gátu tekið slíka ákvörðun. 

Hún las upp hlutverk nefndarinnar og sagði hana eiga að athuga eftirfarandi:

  • Hvort sérstök beiðni barst um þennan stuðning, hver beiðandinn var og að hverjum beiðnin beindist innan íslenska stjórnkerfisins.
  • Hvaða upplýsingar bárust ríkisstjórninni um forsendur innrásarinnar og hvaðan.
  • Hvaða mat var lagt á þær upplýsingar af hálfu sérfræðinga á vegum ríkisstjórnarinnar og hverjir önnuðust það mat.
  • Hvernig ákvörðunin var tekin innan ríkisstjórnarinnar og stuðningsflokka hennar.
  • hvers vegna ákveðið var að hafa ekki samráð við Alþingi samkvæmt landslögum, 24. gr. þingskapalaga, og hvaða ráðherra bar ábyrgð á því að það var ekki gert.
  • Hvenær var horfið frá þeirri stefnu að gefa bæri vopnaeftirlitsmönnum Sameinuðu þjóðanna meiri tíma til að ljúka störfum og að hernaðaraðgerðir gegn Írak kölluðu á nýja ályktun öryggisráðsins.
  • hvernig ákvörðun ríkisstjórnarinnar var komið á framfæri við umheiminn, hverjum voru send boð um þessa ákvörðun og með hvaða hætti.
  • Af hverju sagt var frá ákvörðuninni í Washington en hún ekki kynnt íslensku þjóðinni með fréttatilkynningu, á blaðamannafundi eða eftir öðrum viðurkenndum samskiptaleiðum stjórnvalda og almennings.

Verið að dreifa athyglinni

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði lögmæti og gildi ákvörðunarinnar ótvírætt, og fyrir liggi lögfræðilegt álit Eiríks Tómassonar lagaprófessors um það. Hins vegar hafi ákvörðunin verið umdeilanleg. Hún segist sjálf telja að ákvörðunin hafi verið rétt eðlileg.

Hvað varðar birtingu gagna sagði Þorgerður styðja það fullkomlega. Hún vill ekki neinn feluleik. Um er að ræða stórt mál sem þurfi að ræða. Hún setti þó spurningamerki við forgangsröðun ríkisstjórnarinnar, að þetta mál skuli vera tekið fram yfir önnur er varða vandamál heimilanna. „Fínt, drögum allt fram. [...] En ég segi þetta mál tilkomið til þess að dreifa athygli í erfiðum málum sem ríkisstjórnin er að reyna höndla með en gengur ekkert.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert