Fæla fjárfesta frá landinu

Formaður Samorku óttast að erlendum fjárfestum sem sýna áhuga á …
Formaður Samorku óttast að erlendum fjárfestum sem sýna áhuga á framkvæmdum hér á landi fari fækkandi. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Franz Árnason, formaður Samorku, sagðist á aðalfundi Samorku í dag óttast að erlendum fjárfestum sem sýna áhuga á framkvæmdum á orkusviðinu fari fækkandi vegna þess að þær móttökur sem þeir fá á æðstu stöðum séu oftar en ekki til þess fallnar að fæla fjárfesta frá landinu.

Franz sagði í ræðu sinni að það væri fullkomlega óábyrgt að halda ekki áfram virkjun jarðhita og fallvatna, til raforkuframleiðslu fyrir orkufrek iðjuver, nú þegar þörf er á að auka gjaldeyristekjur og atvinnu.

Hann sagði að fjármögnun framkvæmda væri mjög erfið fyrir Íslendinga nú um stundir og nauðsynlegt að fá erlenda fjárfesta að framkvæmdum á orkusviði. Slíkir fjárfestar væru til „en ég óttast að þeim fari fækkandi vegna þess að þær móttökur sem þeir fá á æðstu stöðum eru oftar en ekki til þess fallnar að fæla fjárfesta frá landinu,“ sagði Franz.

„Sama má segja um ráðstafanir eins og þá að skattleggja raforkunotkun með beinum hætti og að úrskurða á æðstu stöðum um aukið eða samþætt umhverfismat og fleira því tengt án þess að til þess standi lagaleg skylda. Erlend fjárfesting er líklega mikilvægari nú en nokkru sinni fyrir íslenskt atvinnulíf. Við hljótum að gera þá kröfu til stjórnvalda að þau vinni með atvinnulífinu á þessu sviði, en ekki gegn því,“ sagði hann.

Franz Árnason formaður Samorku.
Franz Árnason formaður Samorku. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert