Hagar ætla að áfrýja til Hæstaréttar dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í dag. Dómstóllinn hafnaði kröfu Haga um að ógilda þá niðurstöðu samkeppnisyfirvalda, að Hagar væru í markaðsráðandi stöðu á matvörumarkaði og hefðu brotið gegn ákvæðum samkeppnislaga um undirverðlagningu í svonefndu „mjólkurstríði" árið 2005.
Héraðsdómur staðfesti einnig ákvörðun Samkeppnisyfirvalda um að Hagar greiði 315 milljónir króna í stjórnvaldssekt vegna lagabrotanna.
Finnur Árnason, forstjóri Haga, segir í tilkynningu, að dómi héraðsdóms verði áfrýjað til Hæstaréttar, m.a. af eftirfarandi ástæðum:
Ekki liggja fyrir mörg dómafordæmi er varða undirverðlagningu og Samkeppniseftirlitið hefur ekki gefið út almennar leiðbeiningar varðandi þetta efni. Ekki er vikið beinum orðum að undirverðlagningu í 11. gr., samkeppnislaga, um atriði sem falla undir misnotkun á markaðsráðandi stöðu heldur byggt lögskýringargögnum og fræðisetningum. Þegar af þeirri ástæðu telja Hagar hf. slíka réttaróvissu ríkja um þau atriði sem fjallað er um dómi héraðsdóms að nauðsynlegt sé að hann sæti endurskoðun af hálfu æðri dóms þar sem hún hafi almennt gildi.
Umrætt verðstríð hófst í lok febrúar 2005 og var því gerð greinargóð skil í fjölmiðlum. Rannsókn Samkeppniseftirlitsins hófst í byrjun júní 2006 með upplýsingabeiðni sem var svarað í byrjun ágúst 2006. Þrettán mánuðum síðar eða í lok nóvember 2007 barst andmælaskjal frá Samkeppniseftirlitinu sem Hagar tóku afstöðu til og sendu svör 1. febrúar 2008. Það var svo eftir hádegi föstudaginn 19. desember 2008 sem ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um 315 milljón króna stjórnvaldssekt barst Högum, í miðri jólaverslun og næstum 4 árum eftir að verðstríðið byrjaði. Hagar eru ekki sammála því mati héraðsdóms að ekki hafi verið brotið gegn ákvæðum stjórnsýslulaga um eðlilegan málshraða. Jafnframt telja Hagar að rannsóknarregla hafi verið brotin en undir það tekur héraðsdómur ekki og telur rannsókn Samkeppniseftirlitsins hafa verið fullnægjandi. Á þessi atriði mun reyna við áfrýjun málsins.
Hagar munu krefjast endurskoðunar á því að dómurinn fellst á að Hagar hf. hafi verið í markaðsráðandi stöðu en því hefur fyrirtækið mótmælt frá upphafi.
Í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu segir m.a. að fram komi í málinu að Hagar hafi yfirburði í markaðshlutdeild á matvörumarkaði. Á landinu öllu hafi hlutdeild Haga verið yfir 50%. Þessi hlutdeild Haga hafi vaxið mikið undanfarin ár á kostnað annarra keppinauta. Á höfuðborgarsvæðinu hafi félagið verið með um 60% markaðshlutdeild. Markaðshlutdeild keppinautanna var mun minni. Í ljósi m.a. þessarar hlutdeildar var talið að Hagar væru í markaðsráðandi stöðu.
Samkeppniseftirlitið segir, að í dómi héraðsdóms komi fram það mat, að brot Haga hafi verið sérstaklega alvarleg. Hafi Hagar hafi með þessum aðgerðum skaðað hagsmuni neytenda og fyrirtækið hafi mátt vita að þær væru ólögmætar. Fellst dómurinn á að 315 mkr. stjórnvaldssekt hafi verið hæfileg viðurlög. Er þetta hæsta sekt sem lögð hefur verið á hér landi vegna misnotkunar á markaðsráðandi stöðu, segir Samkeppniseftirlitið.