Hótun Ástrala er innistæðulaus

Hvalfriðunarsinnar elta japanska hvalveiðiskipið Nisshin Maru á hvalaslóðum við Suðurskautslandið.
Hvalfriðunarsinnar elta japanska hvalveiðiskipið Nisshin Maru á hvalaslóðum við Suðurskautslandið. Sea Shepherd

„Hótun forsætisráðherra Ástralíu um málsókn á hendur Japan fyrir
Alþjóðadómstólnum í Haag, stöðvi þeir ekki vísindaveiðar sínar á hvölum í Suðurhöfum á þessu ári, er algerlega innstæðulaus,“ segir Tómas H. Heiðar, aðalfulltrúi Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu.

Kevin Rudd, forsætisráðherra Ástralíu, sagði í samtali við ástralska sjónvarpsstöð að Ástralir vilji vinna með Japönum að samkomulagi um að draga úr hvalveiðum þar til þeim verði hætt. Hann sagði að ef það tækist ekki myndu Ástralir fara í mál við Japani áður en hvalveiðivertíðin hefst í nóvember næstkomandi.

Tómas segir að það sé alveg skýrt samkvæmt 8. gr. alþjóðasamningsins um stjórnun hvalveiða frá 1946, sem er
jafnframt stofnsamningur Alþjóðahvalveiðiráðsins, að aðildarríki hans hafi heimild til að stunda vísindaveiðar. „Japanir eru því í fullum rétti og vísindaveiðar þeirra lögmætar,“ sagði Tómas.

„Hótun Ástrala er hins vegar afar óheppileg og til þess fallin að skapa
trúnaðarbrest og hleypa illu blóði í yfirstandandi viðræður um
málamiðlunarsamkomulag milli fylgjenda og andstæðinga hvalveiða í
Alþjóðahvalveiðiráðinu. Viðræðurnar hafa farið fram í hópi 12 ríkja og eiga Ísland, Japan, Bandaríkin, Ástralía, Nýja Sjáland og Þýskaland m.a. sæti í hópnum.“

Efnt verður til sérstaks aukafundar Alþjóðahvalveiðiráðsins í Flórída í
fyrstu viku mars til þess að fjalla um frumbyggjakvóta Grænlands hvað varðar veiðar á hnúfubak. Grænlendingar hafa borið fram tillögu í ráðinu um veiðar á 10 hnúfubökum á ári. Tómas sagði að sýnt hafi verið fram á það með óyggjandi vísindalegum hætti að umræddar veiðar væru fullkomlega sjálfbærar. Engu að síður hafi sumir lagst gegn tillögunni af mikilli hörku, einkum Evrópusambandið.

Í tengslum við aukafund ráðsins verður fjallað um stöðu mála í viðræðunum um málamiðlunarsamkomulag. „Bæði Ísland og Japan hafa tekið mjög virkan og uppbyggilegan þátt í viðræðum í 12 ríkja hópnum. Flestir hafa verið reiðubúnir til að leggja mikið á sig til að finna málamiðlun sem felur hvort tveggja í sér aukna hvalavernd og bætta stjórnun hvalveiða. Viðræðurnar hafa farið fram í góðum anda.“

Tómas sagði Ísland og Japan hafa sýnt verulegan sveigjanleika og hafa verið reiðubúin til að draga nokkuð úr sínum veiðum til að stuðla að sátt. Spurningin sé nú sú hvort andstæðingar hvalveiða í Alþjóðahvalveiðiráðinu muni nýta þetta tækifæri og taka þátt í
því að koma á friði og sátt í ráðinu, sem hefur verið nánast óstarfhæft
vegna stöðugra átaka á undanförnum árum, og stuðla að aukinni hvalavernd sem er þeirra yfirlýsta markmið.

„Hótunaryfirlýsingar Ástrala gefa því miður ekki tilefni til bjartsýni í þeim efnum,“ sagði Tómas. 

Kevin Rudd, forsætisráðherra Ástralíu.
Kevin Rudd, forsætisráðherra Ástralíu. Reuters
Tómas H. Heiðar, aðalfulltrúi Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu.
Tómas H. Heiðar, aðalfulltrúi Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert